135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:59]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska hv. þm. Gunnari Svavarssyni velfarnaðar í formennsku fjárlaganefndar og vona og veit að við eigum eftir að eiga þar gott samstarf. Við verðum kannski ekki alltaf sammála en ég mun náttúrlega reyna eins og ég get að fá hv. þingmann á mitt band og svo bara sjáum við til.

Ég get tekið tekið undir margt sem hann nefndi í sambandi við fjárlagavinnuna og við höfum aðeins rætt það lauslega í fjárlaganefnd. Þó er eitt atriði í því sambandi sem ég vil spyrja hv. þingmann um, þ.e. afstöðuna til þess að þingið komið sér upp eigin efnahagsstofu sem geti annars vegar aflað grunngagna íslensks efnahags- og fjármálalífs sem núna eru ekki fyrir hendi og hins vegar að þingið eigi sjálfstæðan og óháðan aðila til þess að gefa ráð, fara yfir og meta stöðu mála.

Að mínu viti er þetta eitt það brýnasta að koma á. Ég man að við þingmenn Samfylkingarinnar vorum saman um einmitt þessa brýnu ósk á fyrra þingi. Alveg sama hversu menn reyna að bera í bætifláka fyrir talnagrunn fjárlagafrumvarpsins sem nú er lagt fram og fyrri frumvarpa — ég er ekki að kasta rýrð á starfsmennina sem eru að reyna að gera það á sinn besta veg — en það er algjörlega óþolandi og þetta er eitt mesta vandamál í trúverðugleika opinberrar fjármálasýslu, hinn veiki talnagrunnur og (Forseti hringir.) hvað þingið er ósjálfstætt hvað þetta varðar. Eitt brýnasta málið er því efnahagsstofa og ég spyr hv. þingmann um afstöðu hans til þess.