135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:10]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir þessar spurningar og vissulega er hann að fara í ákveðin mál sem ég kom að í ræðu minni áðan. Ég vil hins vegar í upphafi taka undir það sem hv. þingmaður sagði varðandi verktímann. Þrátt fyrir það að kallaðir hafa verið til fjölmargir öflugir aðilar, m.a. úr Hafnarfirði, þá er verktíminn búinn að vera mjög langur og kannski má segja að verktími fjárlagagerðarinnar sé alltaf í gangi. Þar af leiðandi hafði ríkisstjórnin og þar með talinn Framsóknarflokkurinn tækifæri til að koma að þessum málum í vor og hefur auðvitað fulla aðkomu að málinu á næstu dögum og vikum og ég veit að menn munu beita sér í því.

Hvað varðar óvissu í launamálum þá hefur hæstv. fjármálaráðherra bent á það í kynningum sínum um frumvarp til fjárlaga að það er ákveðin óvissa varðandi launamál og sú skýrsla sem ég vitnaði í áðan um þjóðarbúskapinn fjallar einnig um þá hlið. Þar af leiðandi setja menn upp eins raunsanna útgjaldaspá og menn geta haft hverju sinni en hún byggir auðvitað á áætlunargerð.

Ég vil að sama skapi benda á að hér er það eðli ríkis og sveitarfélaga hverju sinni að fara fram með varfærnar tekjuspár á móti til þess að mæta þeim breytingum sem hugsanlega kunna að verða í launaþáttum eða öðru sem þarf að takast á við hverju sinni og ég held að það sé hljómgrunnur á milli flokkanna í þeim efnum.