135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:25]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fátt á óvart í ræðu talsmanns Framsóknarflokksins, hv. þm. Bjarna Harðarsonar, eftir að hafa setið með honum í fjárlaganefnd í fjóra mánuði og átt gott samstarf og skemmtilega umræðu með honum. Það vakti furðu mína að heyra talsmann Framsóknarflokksins við fjárlagaumræðu ársins 2008 tala með þeim hætti sem hann gerði. Það eru einungis fjórir mánuðir síðan samstarfi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins lauk, 12 ára stjórnarsamstarfi, og miðað við orðræðu talsmanns Framsóknarflokksins virðist sem svo að framsóknarmenn hafi litið á ráðherra sína sem heilaga menn og tekið þá í kónga tölu. En að ræða fjárlagafrumvarp ársins 2008 með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði hér er raunar alveg með ólíkindum, að tala um það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi völd yfir kjörfylgi. Líti menn bara í eigin barm og taki aðeins umræðuna um þau völd og áhrif sem Framsóknarflokkurinn hefur haft síðustu 12 árin og beri saman við það kjörfylgi sem hann hefur haft.

Ég held að það væri óskaplega hollt fyrir hv. þingmann að gera það. Ég deili hins vegar áhyggjum hans af því sem fram kom í máli hans varðandi völd, annars vegar framkvæmdarvaldsins og hins vegar þingsins, og hef raunar tekið þá umræðu við hann í fjárlaganefnd um það að við eigum að standa saman um það að styrkja áhrif og völd þingsins. Ég heyri ekki annað en að forseti Alþingis hafi boðað það alla tíð frá upphafi þessa kjörtímabils og ég veit að það er fullur vilji til þess innan fjármálaráðuneytisins að vinna með fjárlaganefnd að því að styrkja okkar hlutverk í því að fylgja eftir og vinna með fjárlögin.