135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:52]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, mér liggur við að segja fyrstu málefnalegu ræðuna af hálfu stjórnarandstöðunnar í dag. Auðvitað á mikinn þátt í því löng tilvitnun í Björn Rúnar Guðmundsson. (GAK: Mér fannst ástæða til.) Ég held hins vegar að ekki sé rétt að tala um hann sem talsmann Landsbankans, greiningardeildirnar eiga að vera óháðar deildir innan bankanna. En hann er mjög trúverðugur hagfræðingur, enda fyrrverandi starfsmaður bæði í Þjóðhagsstofnun og fjármálaráðuneytinu. Þær vangaveltur og sú umfjöllun sem hann er með í grein sinni eru einmitt ástæðan fyrir því að ég hef, bæði þegar ég hef kynnt fjárlagafrumvarpið í ræðu minni í dag og eins í þjóðhagsskýrslu ráðuneytisins, fjallað um óvissuþætti í efnahagsspánni. Þar er einn af þremur stærstu þáttunum sú spurning hvort um áframhaldandi stóriðjuuppbyggingu verður að ræða eða ekki. En eins og margoft hefur komið fram hjá mér, bæði í dag, fyrr á árinu og á fyrri árum, hefur reynslan kennt okkur að við eigum að fara varlega í að taka inn í áætlanir okkar hluti sem ekki er búið að ákveða. Þess vegna er fráviksspá í þjóðhagsspánni um það sem gerist ef til stóriðjuframkvæmda kemur. Þá verður staðan vissulega önnur og þá er kerfið þannig útbúið að bæði bregst það sjálfkrafa við og eins hefur Alþingi og framkvæmdarvaldið möguleika á því að bregðast við.