135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[13:00]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson fór mjög rækilega yfir það hversu mikilvægt væri að forsendur fjárlagagerðarinnar væru réttar og sannar, hvort sem við værum sammála þeim eða ekki. Hann vitnaði einmitt til mikilla missagna hvað það varðar, sérstaklega varðandi stóriðju. Ég leyfi mér að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki skilyrði að við fáum afdráttarlaus svör frá ríkisstjórninni, frá fjármálaráðherra, upp á borðið. Að við fáum afdráttarlaus svör um það hvort ráðast eigi í ný stóriðjuverkefni eða ekki. Eins og hv. þingmaður sagði réttilega: Verði ráðist í nýtt stóriðjuverkefni, nýtt álver, verður ekkert pláss fyrir neina byggðastefnu. Þá verður áfram hátt gengi og þensla, og ekkert pláss fyrir neinar kjarabætur til láglaunafólks, til umönnunarbóta. Valið stendur í rauninni á milli þess að ráðast í nýja stóriðju, nýtt álver, eða að styrkja innviðina og bæta kjör og koma til móts við byggðirnar eins og hv. þingmaður rakti rækilega. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að við verðum að krefjast svara um svo stóran þátt sem hefur áhrif á framvindu efnahagslífs og fjármála á næstu árum. Við verðum að fá svör við því hvort ríkisstjórnin ætlar að fara út í enn eitt nýtt álverið með þenslu og spennu og háum vöxtum og háu gengi sem mun virka lamandi á byggðirnar og atvinnulífið og koma í veg fyrir kjarabætur.