135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[13:45]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þá orðræðu sem hv. þm. Jón Bjarnason og félagi í fjárlaganefnd þingsins hafði hér áðan þá vil ég byrja á að þakka honum sérstaklega hlý orð í minn garð og ég vænti sömuleiðis góðs samstarfs við ágætan skólameistara norðlenskrar skólastofnunar að Hólum í Hjaltadal.

Ég hjó eftir því í spurningunni sem hann varpaði til mín í þessu andsvari að hún var samhljóða þeirri spurningu sem hann bar til félaga okkar hv. þm. Gunnars Svavarssonar, formanns fjárlaganefndar, fyrr í umræðunni um stofnun svokallaðrar eftirlitsstofnunar þingsins eða efnahagsstofnunar. Svar mitt í þá veru verður á svipaða lund og formaðurinn gaf í morgun. Ég er alveg til í að ræða allar þær leiðir sem eru færar og hugsanlegar til að styrkja eftirlitshlutverk þingsins gagnvart framkvæmd fjárlaga og öllu því er lýtur að fjárlagagerðinni. Ég held að það sé öllum hollt og um það getum við sameinast. Þær áherslur komu líka mjög rækilega fram hjá forseta Alþingis við setningu vorþingsins að vilji hans liggur til þess að styrkja stöðu þingsins. Þá umræðu nefndi ég fyrr í morgun. Fjármálaráðuneytið hefur sömuleiðis gert þetta og enn fremur hafa oddvitar ríkisstjórnarinnar lýst yfir vilja til þess að vinna í þessa veru. Ég hef því ekki ástæðu til að ætla annað en að við munum gera breytingar í þá veru til að styrkja stöðu þingsins í þessum efnum og þá fjárlaganefndarinnar. Í hvaða formi það verður hins vegar get ég á þessu stigi ekki haft neina ákveðna skoðun á.