135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[13:47]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar undirtektir. Hv. þingmaður er líka þaulvanur sveitarstjórnarmálum og er að ég best veit enn þá starfandi sveitarstjórnarfulltrúi á Akureyri. Sveitarstjórnir um allt land hafa borið fram mjög afdráttarlausar kröfur og óskir um styrkingu á tekjustofnum sveitarfélaga, um fjárhagsgrunn sveitarfélaga og reyndar um bein framlög, aukin framlög til þeirra sveitarfélaga sem verst standa og legið hefur fyrir í nokkur ár að munu ekki ráða við að standa með eðlilegum hætti undir rekstri sínum. Ekki bætir að þetta eru yfirleitt sömu sveitarfélögin og nú lenda í hremmingum vegna niðurskurðar á þorskheimildum. Mun hv. þingmaður beita áhrifum sínum og fylgja eftir þeim málflutningi á þingi sem ég hef heyrt hann gera utan þings af mikilli einurð og ber virðingu fyrir? Mun hann beita sér fyrir því innan þingsins að hér verði komnar, áður en við afgreiðum fjárlög fyrir jól, beinar aðgerðir til að styrkja tekjugrunn og tekjustofna sveitarfélaganna með því að láta þau fá hluta í ákveðnum tekjustofnum, með því að færa beinlínis beinar greiðslur til ákveðinna sveitarfélaga umfram það sem gert er vegna mótvægisaðgerðanna til að styrkja tekjugrunn þeirra? Ég veit að hv. þingmaður veit nákvæmlega hversu það brennur á sveitarfélögunum því þetta er kannski ein mesta ógnunin við jafnvægi samfélagsins í landinu öllu. Mun þingmaðurinn beita sér af sama afli og ég hef heyrt hann beita sér utan þings til að ná þessu fram? Ég mun styðja hann í því.