135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:04]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vissi svo sem að ég þyrfti ekki að brýna félaga mína úr sveitarstjórnargeiranum til dáða varðandi tekjustofna sveitarfélaga. Það vill svo skemmtilega til að í alþingiskosningunum í vor vorum við fimm af ellefu stjórnarmönnum í Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem hlutum kosningu á Alþingi. Við öll sem buðum okkur fram hlutum kosningu þannig að ég er sannfærður um að góður stuðningur verður við það á vettvangi Alþingis, meðal þessa öfluga hóps sveitarstjórnarmanna, að láta ekki sitt eftir liggja í baráttunni fyrir því að tekjustofnar sveitarfélaga verði breikkaðir og styrktir og þar verði um frambúðarlausnir að ræða en ekki smáskammtalæknir, sem við höfum öll fengið meira en nóg af. Ég fagna því sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir sagði um það atriði.

Varðandi Sundabrautina þá er meira og minna allt hárrétt í því sem hv. þingmaður sagði um það mál. Ég gat bara ekki látið hjá líða að nefna það mál vegna þess að það vill svo til að ég og hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir höfum um árabil legið undir ámæli frá samstarfsflokki hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir að hafa ekki komið Sundabraut áfram vegna þess að skipulagið væri ekki komið nógu langt eða vegna þess að alls konar skýrslugerðir drægjust. Núna virðast slík mál ætla að tefja enn eina ferðina. Þess vegna er ekki hægt annað en nefna það í þessu samhengi, þegar Sjálfstæðisflokkurinn er nú ráðandi um peningamálin. Sá flokkur hefur einna helst gagnrýnt okkur fyrir að hafa farið okkur hægt í skipulagsmálum. Það kennir okkur líka að stundum er best að hugsa sig vel um áður en menn taka ákvarðanir um hvaða leiðir eru farnar, t.d. í stórframkvæmdum eins og Sundabrautin sannarlega verður. Ég held að vandaður undirbúningur og mikil vinna sem hefur farið í það mál muni einmitt skila okkur bestu leiðinni þegar upp verður staðið.