135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:16]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er eins og við mátti búast, þingmenn Samfylkingarinnar eru strax farnir að biðja sér vægðar. Þeir hafi ekki náð þessu og hinu kosningaloforðinu inn í fjárlagafrumvarpið. Ekki kæmi á óvart að við fengjum fleiri og stærri skriður í þeim dúr á næstunni. Einhver þingmaður orðaði það svo að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið búinn að lofa svo miklu fyrir kosningar að ekki yrði pláss fyrir kosningaloforð Samfylkingarinnar fyrr en á miðju kjörtímabili eða svo.

Ég er ekki sammála því að Samfylkingin eigi að bogna svona eins og hv. þingmaður var að lýsa. Það er einmitt í fyrsta frumvarpinu, sem er stefnumarkandi fyrir framtíðina, sem Samfylkingin á að standa í lappirnar. Ef hún gerir það ekki í byrjun býð ég ekki í hana þegar líða fer á kjörtímabilið. Reynslan af Framsóknarflokknum í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn segir okkur að það varð heldur lítið úr honum í því starfi. Þetta er því einungis hollráð til hv. þingmanns.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann um eitt. Eitt helsta kosningamál Samfylkingarinnar á Vesturlandi var að frítt yrði í Hvalfjarðargöngin. Ég minnist þess að ýmsa góðviðrisdaga, eða hvort sem það var góðviðri eða ekki, stóðu frambjóðendur Samfylkingarinnar við göngin og lýstu því að það yrði þeirra fyrsta mál. Nú heyrist mér að auka eigi og lengja innheimtu við Hvalfjarðargöngin til frekari vegaframkvæmda. Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvernig hann hyggst standa við þetta loforð sem var eitt stærsta kosningamál Samfylkingarinnar á Vesturlandi, Samfylkingarinnar á Akranesi og hv. þingmanns sem frambjóðanda síðasta vor.