135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:22]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem ágætt að við eigum hér samtal, þingmenn Norðvesturkjördæmis, og ræðum stefnumálin sem við lögðum fram í kosningunum og að hve miklu leyti þau hafa komist til framkvæmda. Það er rétt, ég sagði: Kemur síðar. En það gerist ekki allt fyrsta árið. Ég átti ekki heldur von á því þegar ég fór á þing að allt mundi gerast á fyrsta ári og ég gæti þar með farið heim.

Mér finnst aftur á móti mjög erfitt að taka þátt í umræðunni eins og hv. þm. Jón Bjarnason leggur hana upp aftur og aftur og ruglar saman öllum hugtökum hvað varðar einkavæðingu eða rekstur á vegum ríkisins, einkaframkvæmd o.s.frv. Ekki er þar með sagt að um sé að ræða einkarekstur þó að einhver taki að sér að framkvæma einhverja hluti. Við eigum vonandi eftir að eiga orðastað um þetta síðar.

Hvað háskólann á Ísafirði varðar þá er búið að skipa nefnd sem á að vinna í því með hvaða hætti standa eigi að því máli. Það þarf að gerast með lagabreytingu og ég bind miklar vonir við starf þeirrar nefndar. Það mál er komið í skýran farveg. Það getur vel verið að ég verði að segja einu sinni enn: Það kemur síðar. En við skulum vona að þetta „síðar“ verði innan ekki of langs tíma.