135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:27]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég er jafnnær um afstöðu Samfylkingarinnar til þeirra kjaraviðræðna sem fram undan eru. Ég greini í fjárlagafrumvarpinu, sem nú er lagt fram, mikið andvaraleysi gagnvart því ástandi sem er fram undan. Ég er ekki að segja að það eigi að spila út spilum kjarasamninganna og ég held meira að segja að jafnvel hafi verið gengið aðeins of langt með því að gefa það út að stefnt sé að skattalækkunum.

Það sem ég á við er það að rýmið til hinna almennu hækkana á fjárlögum er mun minna en það sýnist vera vegna þess að kjarasamningavetur er fram undan. Þegar spurt er hvar ég vilji lækka tölur í fjárlagafrumvarpinu, hvað ég vilji skera niður þá áskil ég mér allan rétt til þess að taka mér tíma til að skoða það. Ég hef ekki náð að kynna mér fjárlagafrumvarpið til hlítar og get ekki komið með ábyrgar tillögur um það þremur dögum eftir að hafa séð þessa (Forseti hringir.) þykku bók í fyrsta skipti. En ég mun koma með þær tillögur.