135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:31]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir skildi mig þannig að ég væri að óska eftir einhverjum hallelújakór og að ég væri að kveinka mér undan því að ekki væri nógu vel farið með Samfylkinguna. Hvort tveggja er rangt. Vorþingið kenndi mér að ég átti ekki von á neinum hallelújakór. Aftur á móti átti ég von á því að menn drægju upp einstök mál, tækju þau sem dæmi um ríkisstjórn í heild, tíndu út einhver smáatriði og segðu að í þeim fælist einhver heildarstefnubreyting. Hv. þingmaður nefnir hér sjúklingaskattana, að þeir hafi hækkað um 1,3 milljarða, ég skal skoða þá tölu betur, en tekur svo tölur upp á 250–300 millj. Það vantar því svolítið inn í spurninguna þó ekki væri annað. Það er alveg ljóst að ekki hefur orðið nein stefnubreyting varðandi gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu af hálfu ríkisstjórnarinnar, a.m.k. ekki formlega. Það verður þá forvitnilegt að skoða það ef það er eitthvað nýtt sem er að koma hér inn en við förum að sjálfsögðu yfir þetta saman. Það er aftur á móti búið að ræða um ýmsa hluti, ekki varðandi gjaldtöku heldur ýmsa aðra þætti og þær umræður eiga sér væntanlega stað í fjárlaganefndinni þegar þar að kemur.

Ég benti á öll hin atriðin sem skipta auðvitað miklu máli og hefði verið gaman að heyra athugasemdir Álfheiðar um þau, eins og um málefni geðfatlaðra, um málefni fatlaðra, ýmislegt annað sem kemur til eins og í menntamálum, rannsóknastyrkirnir, byggðamálin og leiðrétting á þeim. Ef þetta eru ekki dæmi um eitthvað sem ríkisstjórnin hefur tekið ákveðna stefnu í og sýnt með hvaða hætti hún ætlar að starfa og með þeim fyrirheitum sem hún gefur sem á eftir að vinna betur úr eins og jöfnun á launamuninum eða bótum fyrir umönnunarstéttirnar þá skulum við láta reyna á það. Það hefði því kannski verið óhætt, þó að ég sé ekki að biðja um hallelújakór, að ætlast til þess að þingmaður eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir mundi a.m.k. fagna því að þetta væri þarna inni.