135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:45]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir gagnrýnir útgjaldastig frumvarpsins en hún ætlar ekki að segja mér hvar eigi að draga úr útgjöldum. Hver er trúverðugleikinn í þessu? Jafnreyndur stjórnmálamaður og raun ber vitni kemur hér upp og gagnrýnir útgjaldastigið en hefur engar hugmyndir um hvar eigi að minnka útgjöldin. Fjárlagafrumvarpið er lagt fram í þinginu til þess að það sé rætt og til þess að fá fram skoðanir á því og til þess að menn geti lagt fram breytingartillögur og tekið afstöðu til þeirra. (Gripið fram í: Á þremur dögum?) Á þremur dögum. Nei, það var enginn að tala um það en einn hv. þingmaður boðaði fyrir tveimur árum að fram kæmu tillögur um lækkun útgjalda. Við erum reyndar enn þá að bíða eftir þeim tillögum. En ef frammíkall hv. þingmanns þýðir það að Framsóknarflokkurinn ætlar að koma með tillögur um minni útgjöld áður en yfir lýkur við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins þá getum við örugglega beðið í þann tíma en ég veit ekki hvort við getum beðið í tvö ár. — Nú er tími minn að renna út líka.

Hv. þingmaður spurði um samgöngumálin. Auðvitað er það rétt að stór hluti af samgönguframkvæmdunum, reyndar mestur hluti þeirra eru ákvarðanir frá tíð fyrri ríkisstjórnar þannig að hv. þingmaður ber auðvitað mikla ábyrgð á þeim. Út af fyrir sig er því ekki mikið meira um það að segja en fyrst hún fór að nefna það þá get ég alveg staðfest það.