135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:49]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég er mjög sáttur við frumvarpið. Hv. þingmaður kallaði eftir auknu aðhaldi. Það er meiri afgangur í frumvarpinu en okkur tókst nokkru sinni sameiginlega að koma fram með í frumvarpi allan þann tíma sem við vorum saman í ríkisstjórn, og samanburður við fyrri ár sem hún nefndi í ræðu sinni er nákvæmlega eins og samanburður við fyrri ár var í fyrra, hittiðfyrra og árið þar á undan. Það hefur því ekkert stórkostlegt breyst í þessu enn sem komið er. Við erum hins vegar með á prjónunum, eins og fram hefur komið í umræðunni, umtalsverðar breytingar.

Ég heyri það reyndar líka að hún hefur áhuga á því að ræða ýmis mál við mig, eins og þau er varða heimildir Grímseyjarferjunnar en vill gera það við annað tækifæri og það er sjálfsagt að bíða með það. Ég vil alveg sérstaklega ræða þetta við fyrrum 1. þm. Norðaust.

En vegna ræðu fyrsta talsmanns Framsóknarflokksins í ríkisfjármálunum, hv. þm. Bjarna Harðarsonar, áðan þá langar mig til að spyrja hv. þingmann út í sérstaklega eitt atriði, eina grein í frumvarpinu sem hv. þingmaður gagnrýndi sérstaklega. Ef hv. þingmaður er ekki tilbúinn til að svara því núna við þessa umræðu þá gerir hann það kannski við 2. umr., en það er 6. gr. heimildin sem hv. þm. Bjarni Harðarson gagnrýndi. Það er 6. gr., liður 7.5 sem fjallar um heimildir heilbrigðisstofnana til þess að eiga samstarf við einkaaðila á heilbrigðissviðinu og ef það eru fjárhagsskuldbindingar sem því fylgja þá á að bera það undir fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra. Hann gagnrýndi þetta mjög og taldi þetta vera mjög neikvæða þróun. Ég vil gjarnan vita afstöðu hv. þingmanns til þeirrar heimildar, hvort hún er sammála þessari gagnrýni eður ei.