135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:53]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er að mörgu að hyggja þegar verið er að ræða fjárlagafrumvarpið. Þar er allt ríkiskerfið undir og velferðarkerfið þannig að það er eðlilegt að margt beri á góma sem ástæða þykir til að ræða.

Ég vildi kannski aðeins bæta við það sem hér féll áðan í umræðum um heilbrigðismál. Ég las í vikunni mjög athyglisverða frétt um gæði heilbrigðisþjónustunnar í Evrópusambandslöndunum og nokkrum löndum þar fyrir utan. Þar kom mjög glögglega í ljós að kerfið er best í þeim ríkjum Evrópu sem styðjast við svonefnt Bismarck-kerfi og mun betra en kerfi þeirra ríkja sem hafa byggt kerfi sitt upp á grundvelli hugmyndar breska Beveridge-kerfisins. Stærsti munurinn á þessum tveimur kerfum er sá að í hinu upprunalega þýska kerfi er gerður greinarmunur á seljanda og kaupanda. Ég held að menn verði auðvitað að skoða heilbrigðiskerfi eins og hvert annað kerfi sem menn setja á fót og leitast við að breyta því og þróa þeim til hagsbóta sem kerfið er ætlað. Kerfið sjálft er aldrei aðalatriði og menn eru á villigötum að mínu viti þegar þeir leggjast í vörn fyrir kerfið sem slíkt. Það á við í heilbrigðismálum alveg eins og það á við í sjávarútvegsmálum þegar menn liggja í vörn fyrir kvótakerfi sem hefur það eitt sér til árangurs unnið að geta skuldsett greinina um 300 millj. kr. Það á eftir að sanna gildi sitt með því að sýna fram á að þeir sem tóku á sig skuldirnar geti borgað þær.

Fjárlagafrumvarpið sem hér er lagt fram ber fyrst og fremst með sér að fjármálastjórnunin og efnahagsstefnan í núverandi ríkisstjórn og þeirri sem sat á síðustu árum er í ólgusjó. Menn eru að sigla sjóinn með þanin segl upp í hæstu möstur og láta skeika að sköpuðu um það hvar skipið ber niður eða hvar það nær landi. Við sjáum það á þeim óstöðugleika sem er í efnahagslífinu og er búinn að vera mjög lengi. Hann á sér einfaldar og skýrar rætur sem Seðlabankinn og fleiri aðilar hafa verið að benda á. Allt frá árinu 2004 hafa menn gert þrennt sem samanlagt magnar upp þann vanda sem við er að glíma:

Í fyrsta lagi að lækka skatta mjög mikið.

Í öðru lagi hafa laun hækkað langt umfram verðlag. Í nýlegri skýrslu frá Samtökum atvinnulífsins kemur í ljós að laun á Íslandi eða launakostnaður er 30% hærri en á evrusvæðinu og launin á Íslandi hafa hækkað um 15% meira en þar frá árinu 2004.

Í þriðja lagi hafa vextir lækkað með þeirri breytingu sem varð með Íbúðalánasjóði árið 2004 og bankarnir síðan fylgdu í kjölfarið með miklum látum.

Þegar þetta þrennt kemur saman verður mikil kaupmáttaraukning sem leiðir af sér mikla eftirspurn, mikla einkaneyslu. Bætast svo við stóriðjuframkvæmdirnar sem verið hafa á þessum tíma. Þá eru menn með kokteil sem þýðir það að menn standa frammi fyrir verðbólgu og mjög skrykkjóttu gengi og það mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að gengið hér á landi eigi eftir að falla um 25% á stuttum tíma. Það er mat alþjóðlegra sérfræðinga. Til þess að ná jafnvægi í efnahagslífinu, sem ég tel mikilvægasta verkefnið um þessar mundir, þurfa menn að hægja á ferðinni. Það þarf að rifa seglin. Það þarf að draga úr væntingum almennings um batnandi kjör á næstu árum. Það þarf að hægja á framkvæmdum ekki bara hins opinbera heldur fyrst og fremst á almennum markaði. Ekkert af þessu er verið að gera í fjárlagafrumvarpinu og forsætisráðherra hellir olíu á eldinn með því að boða skattalækkanir sérstaklega ofan í allan undirbúninginn sem er í gangi um áframhaldandi stóriðju þannig að það verður ekkert stóriðjuhlé.

Við stöndum frammi fyrir því á næstu árum að það verði þessi ólgusjór og ég held, virðulegi forseti, að hann endi bara á einn veg. Hann endi bara á þann veg að skipið mun fara á hliðina. Ég ætla ekki að spá því að það muni sökkva en það mun fara á hliðina vegna þess að gengið mun falla mikið og það mun falla hratt. Hægja þarf á þessum snúningi sem kemur fram í því að fjármunamyndun á næsta ári er talin verða nærri 400 milljarðar kr. í íbúðabyggingum, stóriðju, atvinnulífinu og m.a. framkvæmdum sem ríkið stendur að undir dulnefni sem er á hafnarbakkanum. Þar er verið að byggja ráðstefnuhús og tónlistarhús fyrir um það bil 14–16 milljarða og hlutur ríkissjóðs af því er 54%. Þetta á að vera búið árið 2009.

Samhliða þessum framkvæmdum er verið að byggja nýtt hótel upp á 250 herbergi og samhliða því er verið að byggja nýjar höfuðstöðvar Landsbanka Íslands. Ég mundi því áætla að þessar framkvæmdir einar og sér á þessum byggingarreit séu ekki undir 30 milljörðum kr. sem eiga að vera búnar á árinu 2009. Halda menn að þetta hafi engin áhrif? Hvers vegna var verið að fresta nokkrum samgönguframkvæmdum fyrir tæpum tveimur árum að sumarlagi fyrir smámuni, um heilt ár? Það var til að slá á þensluna. En hvernig halda hæstv. ráðherrar að þeir geti staðið fyrir framkvæmdum upp á tugi milljarða króna með ábyrgð úr ríkissjóði án þess að það hafi nokkur áhrif á þensluna? Það getur ekki gengið að koma fram með svona misvísandi skilaboð eftir því hvort framkvæmdin er á landsbyggðinni því þar var vegaframkvæmdum frestað sumarið 2006 eða á hafnarbakkanum í Reykjavík þar sem framkvæmdunum er ekki frestað fyrir margfalt hærri fjárhæðir.

Mótvægisaðgerðirnar eru 10 milljarðar og ef við drögum frá þær framkvæmdir sem átti að gera hvort sem er og búið var að ákveða þá eru þetta ekki nema um 4 milljarðar á þremur árum. Það er rúmlega 1 milljarður á ári að meðaltali í framkvæmdaumhverfi hins opinbera og almenna markaðarins sem er upp á nærri 400 milljarða. Þetta er um fjórðungur úr prósenti, mótvægisaðgerðirnar. Halda menn að fjórðungur úr prósenti sé eitthvert mótvægi við allt hitt, alla hina uppbygginguna sem er fyrst og fremst samanþjöppuð hér á litlu svæði? Það er ekkert mótvægi. Það er svo ójafnt að jafnvel þó að mótvægisaðgerðirnar hafi einhver áhrif sem ég ætla að vona og tel að séu af hinu góða og til hins betra og vona að það verði sem mestur árangur af þeim en hann er bara sáralítill í hlutfalli við allt hitt sem verið er að gera með hinni hendinni.

Ég vil svo að lokum spyrja: Er eitthvað að marka þetta fjárlagafrumvarp hæstv. fjármálaráðherra? Lítur hæstvirtur ráðherra svo á að fjárlög séu lög sem honum beri að fara eftir? Ég spyr að gefnu tilefni, þ.e. af því tilefni að hæstv. fjármálaráðherra hefur látið sig hafa það að ákveða útgjöld án heimildar í fjárlögum. Hann hefur ákveðið að túlka heimildargrein í fjárlögum, sem er eitthvað á þá leið að heimilt sé að selja ferju og ráðstafa andvirðinu til að kaupa aðra eða leigja, þannig að þar séu tvær heimildir, óháðar hvor annarri og hann hafi heimild til að stofna til útgjalda, ótiltekinna, án tillits til þess hvort búið sé að selja hina fyrri ferju. Með slíkri lagatúlkun er eðlilegt að menn velti fyrir sér spurningunni: Ber hæstv. fjármálaráðherra einhverja virðingu fyrir fjárlögum? Telur hann að hann geti gert það sem honum sýnist?