135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:10]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra má ekki gleyma ríkisendurskoðanda. Hann hefur verið með ummæli um það og það mjög skýr að hæstv. ráðherra hafi ekki farið að fjárlögum eða fjárreiðulögum. Ég hlakka því til að eiga frekari orðastað við fjármálaráðherra um það mál síðar í haust.

Það er kjarni málsins, virðulegi forseti, sem formaður Frjálslynda flokksins benti á þegar hann dró fram mat manna á því hvað væri fram undan, hversu ónákvæmt fjárlagafrumvarpið væri í lýsingu sinni á því sem fram undan er. Í tíð hæstv. fjármálaráðherra Árna Mathiesens er áætlanagerð algerlega farin úr böndunum. Fjárlög 2007 gerðu ráð fyrir skatttekjum upp á um 340 milljarða kr. Nú er áætlað að þær verði 405 milljarðar eða 62 milljörðum hærri. Það er 18% frávik, 18% frávik innan eins árs. Hvers konar áætlanagerð er þetta?

Núna er gert ráð fyrir því að afgangur af fjárlögum 2008 verði 31 milljarður. Í greinargerð fjármálaráðherra segir að áætlunin hefði gert ráð fyrir 60 milljarða kr. afgangi ef ekki hefðu komið til óvænt útgjöld. Fyrir ári taldi ráðherrann að árið 2008 yrði 5 milljarða kr. halli. Þetta er náttúrlega tóm vitleysa. Þetta er engin áætlanagerð. Þetta er skáldskapur, þetta er reyfarasaga sem hæstv. fjármálaráðherra býr til til að fela ákveðna hluti. Það er það sem hæstv. ráðherra er að gera núna, að fela áframhaldandi feiknarleg útgjöld í byggingaiðnaði, áframhaldandi stóriðju og áframhaldandi eftirspurn eftir vinnuafli og hækkandi laun. Ef við bætum því sem við vitum að er fram undan á næstu tólf mánuðum (Forseti hringir.) við spána sjáum við ólgusjóinn sem við blasir, virðulegi forseti.