135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:13]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér til 1. umr. fyrsta fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ég vil í upphafi taka undir með þeim hv. þingmönnum Framsóknarflokksins sem hafa ítrekað bent á að síðasta ríkisstjórn skilaði góðu búi.

Íslenskt þjóðarbú uppsker nú ríkulegan árangur breyttra áherslna í efnahagsstjórn sem teknar voru upp eftir 1991. Aukið frelsi í viðskiptum, einkavæðing ríkisfyrirtækja og lækkun skatta á fyrirtæki og einstaklinga hefur skilað sér í auknum þrótti atvinnulífsins. Afleiðingin er blómlegt atvinnulíf sem skilar skatttekjum til ríkisins í mun meiri mæli en okkur gat órað fyrir. Hagnaður fyrirtækja, bættur hagur launamanna og aukin eignamyndun skila tekjum í ríkissjóð og skapa sterkari grundvöll undir samfélagsþjónustuna en við höfum áður búið við. Þessa sér stað í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2008 sem hér er lagt fram.

Bankarnir sem voru áður í ríkiseigu og skiluðu ekki skatttekjum í ríkissjóð skila nú, nokkrum árum eftir einkavæðingu, tekjuskatti upp á um 25 milljarða kr. í ríkiskassann samkvæmt þeim áætlunum sem birtar voru fyrr á þessu ári. Fyrirtækin sem áður báru 50% tekjuskatt, sem var ekki beint hvatning fyrir þau til að sýna hagnað í rekstri, greiða nú „með ánægju“ 18% tekjuskatt og sjá fram á að hann lækki frekar á næstu árum. Afleiðingin er ekki lækkun skatttekna ríkisins eins og úrtölumenn skattalækkana fullyrtu á sínum tíma heldur stórhækkun á tekjuskatti lögaðila sem rennur í ríkiskassann. Tekjuafgangur ríkissjóðs á þessu ári telst því tugur milljarða kr. og Ísland er í hópi afburðaþjóða varðandi hagvöxt og tekjuafkomu hins opinbera. Skuldir ríkisins hafa verið greiddar niður á síðustu árum og er nú svo komið að vaxtatekjurnar eru hærri en vaxtagjöldin.

Rétt er einnig að halda því til haga, sem fram kom í ræðu hæstv. forsætisráðherra í utandagskrárumræðu í gær, að samanlagður afgangur af ríkissjóði á árunum 2004–2008 mun nema tæpum 300 milljörðum kr. Þessi sterka staða hefur gert ríkissjóði kleift að greiða niður skuldir ríkisins, greiða inn á lífeyrissjóðsskuldbindingar ríkisstarfsmanna hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sem nema um 150 milljörðum kr. frá árinu 1999, og um leið styrkja fjárhagslega stöðu Seðlabanka Íslands.

Því verður ekki á móti mælt að staða ríkissjóðs er sterk. Það gerir kleift að standa myndarlega við loforð ríkisstjórnarinnar í stefnuyfirlýsingu hennar í júní síðastliðnum um lækkaðar álögur á fyrirtæki og einstaklinga í landinu og bæta velferðarkerfið enn frekar. Mitt innlegg í fjárlagaumræðuna í dag beinist fyrst og fremst að því síðarnefnda.

Forsvarsmenn Landssambands eldri borgara vöktu athygli á málefnum sínum í fréttum í gær. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að hún muni leggja megináherslu á málefni elstu og yngstu kynslóðanna. Sérstök áhersla er á að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja. Uppbyggingu 400 hjúkrunarrýma verður hraðað og einbýlum fjölgað. Jafnframt verður lögð áhersla á heimahjúkrun og heimaþjónustu, m.a. með eflingu sólarhringsþjónustu.

Þessi mál eru í góðum farvegi. Á næsta ári eru 962 millj. kr. eyrnamerktar sérstaklega til uppbyggingar hjúkrunarheimila til að mæta þörf fyrir hjúkrunarrými fyrir aldraða og til breytinga og endurbygginga á hjúkrunarheimilum auk þess sem allt framlag til Framkvæmdasjóðs aldraðra á næsta ári, sem er 1,05 milljarðar kr., verður nýtt til stofnkostnaðar og endurbyggingar hjúkrunarheimila en ekki til rekstrar eins og áður. Til viðbótar verður um 220 millj. kr. varið til viðhalds öldrunarstofnana. Alls eru þetta um 2 milljarðar kr. á næsta ári til stofnkostnaðar og endurbóta hjúkrunarheimila sem mun bæta úr brýnni þörf. Þess má jafnframt geta að á árunum 2009 og 2010 verður rekstrarframlag til nýrra hjúkrunarrýma hækkað enn frekar í samræmi við samkomulag við eldri borgara sem gert var sumarið 2006.

Kröfur um aðbúnað á hjúkrunarheimilum hafa tekið miklum breytingum á síðustu árum. Nú dettur engum í hug að byggja hjúkrunarrými öðruvísi en sem einbýli, með sér baði og snyrtiaðstöðu. Þessar breyttu hugmyndir kalla á miklar endurbætur á núverandi hjúkrunarrýmum sem óhjákvæmilega þýðir fækkun þeirra. Að óbreyttu væri mikil hætta á að biðlistar eftir hjúkrunarrýmum ykjust.

Á sama tíma hafa hugmyndir manna um áherslur í öldrunarþjónustu breyst. Aukin áhersla er á að styðja aldraða til að búa heima eins lengi og nokkur er kostur. Við sjáum þegar þessar áherslubreytingar eiga sér stað þar sem eldri borgarar kjósa að byggja sér eða leigja íbúðir í þjónustukjörnum með það í huga að fá þjónustuna heim þegar þörf krefur. Til að mæta breyttum áherslum í öldrunarþjónustu þarf að efla heimaþjónustuna við þann aldurshóp.

Til eflingar heimahjúkrun eru settar 300 millj. kr. í fjárlagafrumvarpinu til að styðja aldraða einstaklinga til sjálfstæðrar búsetu þrátt fyrir veikindi og minni færni. Það er í samræmi við samkomulag við eldri borgara sem áður er nefnt. Þetta fé dugar hins vegar skammt til að ná fram þeim áherslubreytingum sem stjórnvöld og eldri borgarar eru sammála um og gera þarf áætlun um hvernig þeim breytingum verði hrint í framkvæmd.

Í umræðu um flutning verkefna milli félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis sem kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og er ekki að fullu frágenginn vil ég halda því til haga að þjónusta við aldraða í heimahúsum og hjúkrunarheimilum vegna heilsubrests hins aldraðra og sem veitt er af heilbrigðisstarfsfólki telst til heilbrigðisþjónustu. Talsmenn samtaka eldri borgara hafa m.a. lagt til að lög um málefni aldraðra verði lögð niður, m.a. með þeim rökum að ekki eigi að gilda sérlög um þann aldurshóp. Ég legg áherslu á að hið sama gildir um heilbrigðisþjónustu við aldraða. Þetta tek ég fram vegna umræðunnar undanfarið. Ég tel það ekki neinum vafa undirorpið að heilbrigðisþjónusta við aldraða á öllum stigum eigi að falla undir verksvið heilbrigðisráðuneytis eins og heilbrigðisþjónusta við aðra aldurshópa.

Varðandi kjör aldraðra þá hækka bætur lífeyristrygginga í samræmi við breytingu á lögum sem gerðar voru síðasta vetur á sumarþingi. Í því fólst m.a. að lífeyrisgreiðslur voru hækkaðar og dregið var úr tekjutengingu við tekjur maka og lífeyristekjur. Þá hafa tekið gildi ákvæði um að atvinnutekjur þeirra sem eru orðnir 70 ára hafi ekki áhrif á tekjur almannatrygginga en þegar má merkja aukna atvinnuþátttöku eldra fólks í kjölfar þeirra breytinga. Áfram verður unnið með loforð ríkisstjórnarinnar um frekari lækkun á skerðingarhlutfalli í almannatryggingakerfinu og um að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum að lágmarki 20 þús. kr. úr lífeyrissjóði. Að þessu sögðu verður ekki annað sagt en að fjárlagafrumvarp næsta árs beri þess merki að ríkisstjórnin hafi sett málefni eldri borgara í forgang.

Aukinnar áherslu á önnur velferðarmál má víða sjá stað í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2008, bæði aukið fjármagn til barna og ungmenna með þroska- og geðraskanir, með auknu framlagi til barna- og unglingageðdeildar og til Greiningar og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Jafnframt hefur aukið fjármagn verið sett í þjónustu við geðfatlaða með fjölgun úrræða í sambýlum og skammtímavistun fyrir fötluð börn og ungmenni.

Ég hef á undanförnum árum hvatt til þess bæði í ræðu og riti að skipulag heilbrigðisþjónustu verði tekið til gagngerrar endurskoðunar. Allir alþjóðlegir mælikvarðar benda til þess að við gerum vel í heilbrigðisþjónustunni. Samt sem áður stöndum við frammi fyrir ýmsum vanda í heilbrigðisþjónustunni og vil ég nefna nokkur atriði.

Aðgengi að þjónustu er víða ábótavant á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum og hjá læknisfræðilegum sérfræðingum. Það er mikil mannekla í hjúkrunar- og umönnunarstéttum á heilbrigðisstofnunum. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar varðandi það að endurmeta beri sérstaklega kjör kvennastétta hjá hinu opinbera. Til þess er sérstaklega horft sem lausnar á mannekluvanda.

Aðgengi að upplýsingum um heilbrigði og heilbrigðisþjónustu er ábótavant. Fólk leitar of mikið í þjónustu á of háu þjónustustigi. Heilbrigðisþjónusta í heimahúsum er vanþróuð og langt að baki nágrannaþjóðum okkar. Hjúkrunarrýmum í landinu er misskipt. Á höfuðborgarsvæðinu er tilfinnanlegur skortur á þeim en víða úti á landi eru laus rými sem ekki er hægt að fylla. Aldraðir einstaklingar sem lokið hafa meðferð eru innlyksa á sérhæfðum sjúkrahúsum vegna skorts á úrræðum þeim til handa utan þeirra. Heilbrigðisstofnanir eru of miðstýrðar og byggja um of á miklu skrifræði. Sjálfræði hámenntaðs heilbrigðisstarfsfólks er ekki í samræmi við fagmenntun þeirra.

Við getum gert betur með ákveðnum áherslubreytingum. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur á undanförnum vikum vikið að slíkum skipulagsbreytingum sem hann hefur hug á að hrinda í framkvæmd með það að markmiði að auka skilvirkni í heilbrigðisþjónustunni, nýta betur fagþekkingu heilbrigðisstarfsmanna og auka sjálfræði þeirra. Þetta verður m.a. gert með því að yfirfæra í auknum mæli hugmyndir um nýskipan í ríkisrekstri og fjölbreytni á rekstrarformum, m.a. með útboðum og þjónustusamningum. Meðal annars er fyrirhugað að taka upp breytta tilhögun í fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar í þá veru að fé fylgi sjúklingi um leið og búið er til umhverfi kaupenda og seljenda í heilbrigðisþjónustunni. Ég hlakka til umræðna um þau mál á næstu vikum og mánuðum á hinu háa Alþingi.

Í sambandi við fjárlagafrumvarpið er ánægjulegt að fjárhagur Landspítalans skuli styrktur. Landspítalinn veitir sérhæfðustu heilbrigðisþjónustuna í landinu og er í þeirri stöðu að þegar aðrar heilbrigðisstofnanir dragast saman lenda verkefnin á sjúkrahúsinu. Það getur ekki vísað verkefnum frá sér. Nauðsynlegt er að taka á þeim fjárhagsvanda. Hins vegar er ég einnig þeirrar skoðunar að taka þurfi skipulag spítalans til endurskoðunar með þær hugmyndir í huga sem ég nefndi áðan.

Að lokum vil ég fagna auknu framlagi til þróunarmála í fjárlagafrumvarpinu. Við eigum nokkuð í land með að ná þúsaldarmarkmiðum, með að 0,7% þjóðarframleiðslu renni til opinberrar þróunaraðstoðar. En við erum á réttri leið. Jafnframt tel ég að við eigum að leggja áherslu á aðstoð í formi heilbrigðisþjónustu í þróunarlöndum, minnug nýlegrar fréttar í fjölmiðlum þar sem bent var á að samkvæmt upplýsingum frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefði mikill árangur náðst í baráttunni við barnadauða frá árinu 1990. Það er ekki síst að þakka þróunaraðstoð og á það viljum við leggja áherslu.