135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:23]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir aðkomu hennar að fjárlagagerðinni og fyrir að leggja áherslu á heilbrigðismálin og ýmislegt sem þar á að færa til betri vegar. Ég gæti þó sagt að sumt af því verði að hafa innan gæsalappa en ég vil spyrja hv. þingmann um það sem hún kom inn á varðandi hagnað bankanna og aukna skatta til ríkisins og alla þá veltu sem á að auka fjármagn til að bæta velferðarkerfið. Nú er viðurkennt að stór hluti aukinna skatttekna er vegna mikillar veltu í dag en hvernig lítur hún til framtíðar, ef hér verður samdráttur eftir þann hagvöxt og þenslu sem verið hefur? Hvaða áherslur hefur hv. þingmaður varðandi skattalækkanir sem boðaðar hafa verið? Verða það skattalækkanir til fyrirtækja eða skattalækkanir til þeirra sem minna mega sín? Verður farið í afnám tekjutenginga hjá öldruðum og öryrkjum? Er áherslan á hækkun frítekjumarksins eða hækkun skattleysismarka? Verður farið að kröfum aldraðra og öryrkja? Hvað mun hv. þingmaður, formaður heilbrigðisnefndar, leggja áherslu á sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í þeirri meirihlutastjórn sem hyggst ráðast í skattalækkanirnar?