135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:33]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi rekstrarform gerir Sjálfstæðisflokkurinn ekki greinarmun á því hvort rekstur er á einkarekstrargrunni, á sjálfseignarstofnunargrunni eða á öðrum félagslegum grunni. Það sem vakir sérstaklega fyrir Sjálfstæðisflokknum er að fá betri nýtingu fjármuna, gera samkomulag um rekstur, auka gæði þjónustunnar og auka ánægju starfsfólks í starfi þannig að það skili sér til skjólstæðinga. Þegar við tölum um að breyta rekstrarformi koma ýmis rekstrarform til greina.

Hvað Heilsuverndarstöðina snertir skildi ég orð hv. þingmanns fyrst sem svo að hann væri að tala um húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar. Hann þarf náttúrlega ekki að fara í grafgötur um skoðanir mínar á því hvernig farið var með Heilsuverndarstöðina, ég hef lýst þeirri skoðun minni áður. Varðandi húsnæðið sjálft verður ekki snúið til baka. Það er búið að selja það til einkaaðila og einkaaðilar hafa tekið það á leigu til lengri tíma, og hvernig sem það verður. Þar verður að vísu starfsemi sem snertir heilbrigðismál en ekki á höndum ríkisins.

Ákveðin rök voru fyrir því að færa heilsuvernd barna yfir til Landspítalans. Ég keypti ekki þau rök og taldi að hlutirnir hefðu verið í réttum farvegi. Ég held þó að það versta sem við gerðum væri að hringla eina ferðina enn með þá ákvörðun. Hún verður að festa sig í sessi, við verðum að sjá hvort hún dugar ekki. Ég hef verið þeirrar skoðunar að meðganga sé að stærstum hluta eðlilegur þáttur lífsins og ekki þurfi sérhæfða sjúkrahússþjónustu í eftirlit nema í þeim tilvikum sem þeirrar þjónustu er sérstaklega þörf, og tel að það eftirlit hefði átt að vera innan heilsugæslunnar í meira mæli en nú er.