135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:40]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Nú við 1. umr. fjárlaga er mikilvægt að hafa forsendur fjárlaga skýrar. Við erum í 1. umr. að tala heildstætt um fjárlagagerðina og fjárlagafrumvarpið en munum síðan í 2. og 3. umr. fara betur ofan í einstaka þætti. Það segir sig sjálft að ekki gefst tími í tíu mínútna ræðu til að fara vel yfir einstaka þætti. Ég vil fyrir mitt leyti nefna sérstaklega heilbrigðisþjónustuna, velferðarþjónustuna, ýmis mál sem snúa að byggðum landsins og fleiri einstök mál.

Það er mikilvægt að hafa stefnu ríkisstjórnarinnar til hliðsjónar við að reyna að leggja mat á hugsanlega þróun í opinberum rekstri. Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir stöðu og rekstri opinberra stofnana eins og reksturinn birtist í dag og hvort staða þeirra uppfylli ákvæði laga um ábyrgð og þjónustu, og þá sérstaklega á sviði velferðarmála þar sem það er ein viðkvæmasta þjónustuskylda ríkis og sveitarfélaga.

Við þurfum líka að hafa það á hreinu hvort bæta þurfi stöðu ákveðinna hópa, ákveðinna atvinnugreina eða ákveðinna landshluta og hvort jafnréttis sé gætt hvað varðar búsetu og aldur, hvort hugað sé að börnum, öldruðum, öryrkjum og langveikum, hvort hugað sé að jafnrétti hvað varðar kyn og jafnrétti í aðgengi að opinberri þjónustu.

Þegar við skoðum þessa þætti og hvort þess gætir í fjárlagafrumvarpinu að með einhverjum hætti sé reynt að bæta stöðu þessara hópa og hvort forsendur fjárlaga séu skýrar kemur í ljós — og það kom mjög vel fram, bæði í utandagskrárumræðu um horfur í efnahagsmálum og hagstjórn, sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, var upphafsmaður að, og eins í framsögu talsmanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Jóns Bjarnasonar, talsmanns okkar í fjárlaganefnd, — að forsendur fjárlaga eru óvenjulega óskýrar.

Ég vísa því á bug sem bæði hæstv. forsætisráðherra, við umræðurnar í gær, og fjármálaráðherra, við umræðurnar í dag, töluðu um, að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hefðum lítið til málanna að leggja, værum ekkert nema bölmóðurinn og svartsýnin og hefðum ekki skýra stefnu. Það er skýrt í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins að forsendur fjárlaga eru óljósar og vegna þess að miklar breytingar eru fram undan muni á vorþingi verða lögð fram rammafjárlög eða frekari greining á því hvernig vinna eigi með fjárlögin. Það er alveg skýrt. Síðan liggja stórir óvissuþættir í loftinu. Ráðamenn ríkisstjórnarinnar hafa boðað áframhaldandi stóriðjustefnu og við fáum þær upplýsingar frá Landsvirkjun og fleiri aðilum að álfyrirtæki og önnur stóriðjufyrirtæki bíði í löngum röðum eftir því að komast að til að hefja rekstur. Það er búið að gefa því undir fótinn að áfram verði haldið með að minnsta kosti eitt ef ekki fleiri álver nú á næstunni og undirbúningur verði hafinn fljótlega, meira að segja er búið að nefna stað undir næsta álver. Þessar yfirlýsingar einar og sér um áframhaldandi stóriðju og áframhaldandi álversuppbyggingu hafa þegar haft og munu hafa áhrif á áframhaldandi þenslu og alvarleg áhrif á alla innviði íslensks samfélags og þær munu hafa varanleg áhrif á umhverfi og náttúru.

Krafan um viðvarandi og mikinn hagvöxt viðheldur þenslu sem þjóð eins og við, 300 þúsund manna samfélag, ræður ekki við. Orkulindir þjóðarinnar eru sá auður sem stóriðjan sækir í. Stóriðjufyrirtækin sækja fast á í heimi þverrandi auðfenginna orkugjafa, sérstaklega vistvænnar orku. Menn bíða nú í langri röð, eins og ég sagði áðan, og ráðamenn þjóðarinnar virðast ánægðir með athyglina og hugsa til skamms tíma, trúlega bara til næsta kjörtímabils, næstu þriggja ára, þar til farið verður að undirbúa næstu kosningar ef ríkisstjórnin endist svo lengi. Ekki er horft til lengri tíma. Það er þessi skammtímahagvöxtur, áframhaldandi loforð ríkisstjórnarinnar um áframhaldandi góðæri, sem rekur ríkisstjórnina áfram. Vandamálið verður afkomenda okkar.

En vandinn er líka okkar því að það kemur að ruðningsáhrifum stóriðjunnar. Við höfum fundið fyrir þeim undanfarin ár á meðan stærsta byggðaaðgerð allra tíma hefur staðið yfir, bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði. Vissulega eru mikil umsvif á Miðausturlandi, þau hafa verið svo mikil að sveitarfélögin hafa varla ráðið við uppbygginguna. Þau hafa gert sitt besta en hafa mjög lítinn stuðning frá ríkisvaldinu, sem þó kom þessum ósköpum á, til að standa undir þjónustunni sem hefði þurft að fylgja. Hinni miklu þenslu, uppgangi, hagsæld og hamingju, sem á að ríkja á Miðausturlandi, hafa fylgt miklir vaxtarverkir og ég tel að sveitarstjórnir á þessum svæðum hafi sýnt kjark og samstöðu með ríkisstjórninni, af því að þeir studdu nú þessar framkvæmdir, og ekki látið mikið í sér heyra hvað varðar aðstöðuleysi til að standa undir þessum miklu framkvæmdum.

Enda hefur ýmislegt verið látið hjá líða án þess að tekið hafi verið á vandamálunum, samanber þær upplýsingar sem við höfum núna um allan þann fjölda starfsmanna sem er ekki skráður til atvinnu eða búsetu, þannig hefur það verið allan tímann og látið afskiptalaust. Við höfum líka upplýsingar um ýmis lögbrot, sem hafa snúið að lögreglunni og fleirum, sem hafa verið látin afskiptalaus vegna þess að löggæslan fékk ekki þann stuðning eða styrk sem hún þurfti til þess að fylgjast með. Hún fékk ekki stuðning til þess að fylgjast með því sem eðlilegt hefði verið, þó ekki væri nema umferð á stórum trukkum uppi á hálendi landsins vegna kröfu um aðhald í opinberum rekstri. Allt þetta ryður út möguleikum okkar til þess að sinna þeim þáttum sem mikilvægastir eru eins og að leggja fjármagn í verulega uppbyggingu heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir að komast aftur á mælendaskrá því að þetta var eingöngu inngangur að ræðu minni. En það segir ef til vill svolítið til um það hve mikilvægt er að hafa (Forseti hringir.) forsendur fjárlaga skýrar, sem ég tel að sé ekki í dag.