135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:00]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar hv. þingmaður steig í ræðustól fór óneitanlega aðeins að gusta hér um í umræðunni. Ég sé hins vegar ekki alveg tilganginn með því að standa hérna og hrópa upp yfir sig að það sé verið að stela hlutum. (Gripið fram í: Hvað er ...?) Það eiga sér stað viðskipti á fullkomlega löglegan og eðlilegan hátt í viðskiptalífi þjóðarinnar og menn standa hér og tala um að verið sé að stela. Mér finnst það frekar óviðkunnanlegt.

Ég velti því líka fyrir mér hvers vegna hv. þingmaður þarf að gera lítið úr því sem er í frumvarpinu. Hann talar jú um eitthvað sem sé þar ekki en í leiðinni gerir hann lítið úr því sem þar er. Ég horfi á þetta sérstaklega í samhengi við það sem flokksformaður hans sagði hér í gær í umræðu um efnahagsmálin og hann talaði sérstaklega um það hve útgjöldin væru mikil og hve þenslan væri mikil. Mér fannst það vera dálítið á skjön við það sem talsmaður flokksins í ríkisfjármálunum sagði hér fyrr í dag þegar hann vildi eyða stærri hluta af afganginum í hin ýmsu þjóðþrifamál sem hann nefndi. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega að hann teldi að hlutur ellilífeyrisþega og öryrkja væri fyrir borð borinn en sú aukning sem formaður flokksins var að tala um, fjórðungur af þeirri aukningu fer einmitt í þessa málaflokka til að bæta kjör ellilífeyrisþega og öryrkja. Þarna er um miklar upphæðir að ræða. Ég er ekkert að segja að þær séu of miklar en í samhengi við það sem flokksformaðurinn sagði, sem býsnaðist yfir hve miklu væri eytt, þá eru þetta umtalsverðar upphæðir sem hv. þingmaður ætti ekki að gera lítið úr.