135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:05]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Enginn hefur sagt að það væru ekki enn eftir verkefni að vinna til að bæta kjör hinna ýmsu hópa í þjóðfélaginu. Við erum að bæta 2,3 milljörðum í hjúkrunarheimili og endurhæfingu hjá eldri borgurum, við erum með tæpa 2 milljarða í aukningu í minni tekjutryggingu hjá almannatryggingum og 1 milljarð í átak í málefnum fatlaðra. Þetta er ofan á 30 milljarða pakka sem við samþykktum hér fyrir ári síðan í málefnum eldri borgara og öryrkja. Hluti af þessum peningum er reyndar svokallaðir símapeningar sem komu úr viðskiptum ríkisins þegar ríkið seldi Landssímann.

Hv. þingmaður hélt síðan áfram að ræða um viðskiptavild og sölu á viðskiptavild og að viðskiptavildin væri í Hellisheiðinni og Nesjavöllum. Ef hv. þingmaður og flokkur hans fengi að ráða væri nákvæmlega engin viðskiptavild falin í þessum stöðum því að hann mun aldrei leyfa að þessir staðir verði virkjaðir því að þessi flokkur vill ekkert gera í þessum efnum. Hann vill stöðva alla þá framþróun sem þarna hefur verið, það má ekkert virkja og má ekkert gera. (Gripið fram í.)

Við erum að tala um það að erlendir aðilar sýna því áhuga að fjárfesta á Íslandi, fjárfesta í því að nýta auðlindirnar til orkuframleiðslu og til þess að nota þær í hina ýmsu framleiðslustarfsemi. Auðvitað var þá viðbúið en það er manni sjálfum að kenna að verða fyrir vonbrigðum með málflutning vinstri grænna því að hann er alltaf eins. (Gripið fram í: ... fjallagrösin.) Já, hann er alveg eins, ég hef ekki nefnt fjallagrösin, hv. þingmaður gerði það. (Gripið fram í.) Það er tungunni náttúrlega tamast sem hjartanu er kærast. Hv. þingmaður, ekki vera með þessi gífuryrði, ekki sýna því fólki sem vill koma hingað og vinna með okkur þessa andúð og ekki tala um að (Forseti hringir.) einhver viðskiptavild sé fólgin í því sem þú vilt ekki að sé gert.