135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:10]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það er ástæða til þess að óska fjármálaráðherranum til hamingju með það frumvarp sem hér hefur verið lagt fram. Það er reyndar aldrei svo að ekki sé hægt að deila um fjárlagafrumvarp og sennilega er það eitt af þeim frumvörpum sem menn geta deilt hvað mest um, en það er ekki nokkur vafi í huga þeirra sem hafa skoðað frumvarpið og kynnt sér efni þess að staða ríkissjóðs er alveg einstaklega sterk. Ég held að engan mann hafi órað fyrir því í upphafi síðasta áratugar að fjármálaráðherra í ríkisstjórn Íslands ætti eftir að leggja fram frumvarp með um 30 milljarða kr. afgangi. Það hefðu sennilega þótt tröllasögur og ýkjudraumar.

Góður afgangur er ekki markmið í sjálfu sér, markmiðið með ríkissjóði er að styðja við blómlegt og fagurt mannlíf í landinu. Þess vegna og meðal annars hefur Sjálfstæðisflokkurinn staðið fyrir því að lækka skatta til að skilja meira eftir hjá fólkinu í landinu af sjálfsaflafé sínu og um leið hafa tekjur ríkissjóðs aukist alveg gríðarlega vegna þess að það hefur komið fjör og kippur í starfsemina.

Mér fannst áhugavert að hlusta á hv. þm. Ögmund Jónasson sem lagði upp með þá skoðun að sú gósentíð sem verið hefur á Íslandi undanfarinn hálfan annan áratug, hefði ekki á nokkurn hátt verið nýtt til að bæta kjör almennings, hvorki öryrkja, sjúklinga né nokkurra annarra, og var látið að því liggja að einungis örfáir auðmenn hefðu notið ávaxtanna. Þá er til að taka, sem er áhugavert, og skoða bara tímabilið frá 1998, þó ekki sé farið lengra aftur en til 1998. Á milli áranna 1998 og 2007 hækkuðu útgjöld til heilbrigðismála um 34 milljarða á föstu verðlagi. Það þýðir 57% raunaukning. Það er glæsilegt fyrir fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að hafa getað haft efni á að leggja þessa peninga inn í heilbrigðiskerfið á sama tíma og skuldir ríkissjóðs hafa verið greiddar niður, á sama tíma og skattarnir hafa verið lækkaðir. Það hlýtur að vera ánægjuefni.

Það hlýtur líka að vera ánægjuefni þegar við skoðum framlög til menntamála og við sjáum að þar hafa á sama tímabili, þ.e. frá 1998 til 2007, útgjöld ríkissjóðs til menntamála vaxið um 70% og er þá tekið tillit til verðlagsbreytinga líka. Þetta eru áhugaverðar tölur því að þær segja mikla sögu. Þær segja söguna um það að sú nálgun sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir í ríkisstjórn, að lækka skattana, auka kraftinn í efnahagslífinu með því að einkavæða og með því að einfalda regluverk viðskiptalífsins, hefur skilað ríkissjóði alveg gríðarlega miklum tekjuauka. Við eigum að vera ánægð með það og ekki nálgast þessa umræðu með þeim hætti sem Ögmundur Jónasson gerði hér áðan.

Það sem mig langar að nefna í ræðu minni fyrir utan þetta er að ég hef vissar áhyggjur, og get tekið undir með mörgum þingmönnum sem hér hafa talað áður, hvað varðar forsendur fjárlagafrumvarpsins. Ég hef tekið eftir því og það hafa aðrir gert að illa hefur gengið að ná að grípa utan um hvernig á að mæla efnahagsstarfsemina. Það helgast af því, tel ég, að þær breytingar sem hafa orðið í efnahagsstarfseminni og uppbyggingu hennar eru þannig að menn hafa ekki náð að grípa utan um þær með nýjum hagmódelum eða haglíkönum. Þess vegna lendum við í því aftur og aftur að ná ekki að mæla eðlilega eða rétt eða spá fyrir um þróun ríkisútgjalda eða tekna ríkissjóðs fyrst og fremst.

Ég held að stóri þátturinn í því sé hve fjármálastarfsemin hefur vaxið í samfélagi okkar. Það er mjög erfitt að grípa utan um fjármálastarfsemina einfaldlega vegna þess að hún er svo alþjóðleg í eðli sínu og það er erfitt að koma henni inn í hefðbundin haglíkön sem við höfum notað á Íslandi til að lýsa því litla hagkerfi sem við höfum búið við og sem svo lengi var svo lokað. Við sjáum þetta t.d. bara í því vandamáli að mæla viðskiptahallann. Færð hafa verið fyrir því mjög veigamikil rök, m.a. hjá Samtökum atvinnulífsins, að viðskiptahallinn sé rangt mældur, að hann sé í raun ofmældur. Svo tekið sé dæmi þegar tekið er lán erlendis, kannski upp á milljarð, fjárfest í fyrirtæki þar sem nafnverð eigin fjárins er 500 milljónir en kaupverðið er milljarður þá eru færðar til bókar 500 milljónir í eign erlendis, þúsund milljónum var eytt til kaupanna, sem vissulega áttu sér stað, og þá er í ríkisreikningi eða þjóðhagsreikningi eins og tapast hafi 500 milljónir, þær hafi bara horfið, þeim hafi bara verið eytt. Fleiri slík dæmi eru til um það þegar menn hafa verið að vandræðast með eða bögglast með hvernig á að mæla þetta.

Ég hef síðan sérstakar áhyggjur af því þegar ég skoða núna þær forsendur sem eru settar fram í þjóðarbúskapnum og mér verður litið á hagvaxtarspána fyrir árið 2007, ég hef áhyggjur af því eða réttara sagt ég tel bara að sú spá að hagvöxturinn verði 0,7% sé meira en varfærin. Ég held því fram að þetta muni verða hærri tala og ég held að menn geti séð það ef þeir skoða bls. 29 í Þjóðarbúskapnum, þar sjá menn ef þeir skoða þróun í ársvexti fjölda starfa í heild á Íslandi að á árinu 2006 var þessi vöxtur 4% og hagvöxturinn á því ári var líka 4%, það hefur verið að koma í ljós.

Þegar horft er til tveggja fyrstu ársfjórðunga ársins kemur í ljós að það er enn töluverð fjölgun og vöxtur í ársstörfunum. Hvað þýðir það? Það þýðir að sú spá að einungis verði 0,7% hagvöxtur hvílir þá í raun á því að annaðhvort verði mikið hrap í þessum tölum næstu mánuðina eða að framleiðnin í atvinnulífinu sé á hraðri niðurleið, af því að á fyrsta ársfjórðungi er talið að fjölgunin hafi verið um 6%, á öðrum ársfjórðungi ríflega 4%, sem þýðir það einfaldlega að störfunum er að fjölga sem þessu nemur, á milli 4 og 6%, en menn ætla að hagvöxturinn verði bara upp um 0,7%.

Mér þykir miklu líklegra þegar ég horfi á þessar tölur að ef fram fer sem horfir verði fjölgun ársverkanna einhvers staðar á bilinu 3–4% sem mun þá gefa okkur vísbendingu um hagvöxtinn á árinu 2007. Ég hef því ákveðnar áhyggjur af þessari forsendu sem sett er fram í fjárlagafrumvarpinu þegar verið er að skoða til ársins 2007 og nú minni ég auðvitað á að við erum að tala um fjárlögin fyrir 2008, en þetta hefur áhrif á það mat sem menn hafa á stöðu hagkerfisins. Ég hvet til þess að menn hafi það í huga þegar kemur að því meta þetta í meðförum þingsins.

Loks er hitt að nú hafa verið að hlaðast upp peningar vegna efnahagsstefnunnar, vegna þess hversu vel hefur verið haldið á ríkisfjármálunum, vegna þess hversu vel hefur tekist til með efnahagsstjórnina á Íslandi undanfarinn einn og hálfan áratug hafa verið að hlaðast inn innstæður í Seðlabankanum. Ríkið á orðið gríðarlega mikla peninga þar inni. Ég geri það að tillögu minni að skoðað verði alveg sérstaklega hvernig við förum með þá peninga af því að ég hef það á tilfinningunni að fyrir utan Seðlabankann standi óvígur her ráðherra sem gráir fyrir óskajárnum vilja ná þessum pening til sín, í sína málaflokka og í sín ráðuneyti, og meðan þessir peningar eru þarna eins og ormur á öngli er hætt við að það verði enn meiri pressa á útgjöld ríkisins. Ég minni bara á orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar áðan þar sem hann lýsti því hvað hann vildi gera með þessa peninga.

Þess vegna held ég að ekki væri óráð að taka núna töluvert af þessum peningum og borga þá inn í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna af því að við vitum að þar þurfum við að setja inn peninga á næstu árum, nokkra milljarða á hverju ári til að halda þar sjó. — Er hann er farinn, hann Jón? — Ég held að við ættum að setja þessa peninga inn sem fyrst, taka þá úr umferð af því að þetta eru peningar sem við sannarlega þurfum að borga. Ég veit að margir tryggingastærðfræðingar segja að það sé betra að gera þetta með jöfnum hraða og á einhverjum ákveðnum hraða en ég held að það sé betra fyrir okkur að taka þessa freistingu frá mönnum og setja hana í lífeyrissjóðinn. Þá erum við búin að borga það. Ég held að það væri ábyrgt gagnvart komandi kynslóðum og ég tala nú ekki um gagnvart útgjaldastiginu á næstu mánuðum og missirum.