135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:23]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það væri þjóðráð ef það þyrfti. Ég treysti vel þingmanninum til að hafa rétta skoðun á því að þá þyrfti að breyta lögum um þennan lífeyrissjóð eða almennt um lífeyrissjóðina og þá er sjálfsagt að skoða það. Miðað við það hvernig stjórnarandstaðan hefur talað í dag virðist full ástæða til að ætla að lífeyrissjóðirnir eigi að fjárfesta sem mest erlendis. Annað verður ekki ráðið af þeim ummælum sem hér hafa fallið en að hér sé allt meira og minna í kaldakoli, í það minnsta við að fara á hliðina, þó ekki sokkið.

Ég er bara að reyna að leggja upp með þetta: Við eigum þessa miklu sjóði og við þurfum að velta fyrir okkur hvað við ætlum að gera. Ég held að það sé best að borga þær skuldir sem á okkur eru fallnar. Ég tel það skynsamlegast og ég er virkilega ánægður og glaður yfir að þingmaðurinn hefur tekið undir með þeim hætti sem hann gerði áðan, að það væri ráð að skoða þetta. Ég held að menn gætu sameinast um að nálgast málið með þessum hætti. Ég held að það væri óráð ef við færum að veita allar þessar stóru fjárhæðir í hagkerfið, annaðhvort með því að auka ríkisútgjöld eða að þessir peningar rynnu með öðrum hætti inn í hagkerfi okkar. Það er ekki stórt og við þurfum á því að halda að hafa möguleika á að fjárfesta erlendis.

Ég vek athygli á fréttum sem borist hafa undanfarið um að fjöldi starfsmanna íslenskra fyrirtækja erlendis jafnist nærri því á við alla íslensku þjóðina, þ.e. að tvær íslenskar þjóðir eru í vinnu hjá íslenskum fyrirtækjum. Það er áhugavert og sýnir þær miklu breytingar sem hafa orðið á hagkerfi okkar. Um leið sýnir það hinn mikla vanda við að reyna að búa til líkön eða módel sem ná utan um hagkerfið. Það er vandinn sem við höfum séð á undanförnum missirum og árum. Við eigum alltaf erfiðara og erfiðara með að gera þetta. Það kallar á töluvert mikla vinnu að laga þetta en það er mjög mikilvægt.

Það er mjög erfitt að sjá fyrir sér að hagstjórn geti verið skynsamleg þegar menn vita ekki hvort hagvöxturinn verður 2% eða 4%, ég tala ekki um núna þegar kemur loksins í ljós að árið 2001, þegar menn töldu að hefði verið samdráttur og við vorum skammaður fyrir það í kosningunum 2003, þá kemur í ljós að það var hagvöxtur. Einhverjir skulda okkur afsökunarbeiðni, sumir í Samfylkingunni meira að segja. Vinur minn Lúðvík skuldar okkur afsökunarbeiðni fyrir það hversu illa var talað um hagvöxtinn þá.