135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:36]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir ræðu hans og framlag til umræðunnar. Hann hefur verið talsmaður Vinstri grænna, sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn hér á þingi, og því ekki óeðlilegt að þar ómi helstu sjónarmið stjórnarandstöðunnar.

Ég hlýddi í gær á ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hann gagnrýndi mjög hart þá miklu þenslu og óstjórn sem ríkti í efnahagsmálum hér á landi og taldi mikilvægt að ríkisstjórnin, sem nú situr, notaði tækifærið og drægi saman seglin eða skæri niður eins og hann orðaði það. Mér finnst allt annar tónn í ræðu talsmanns Vinstri grænna hér í fjárlagaumræðunni og þætti vænt um að hv. þingmaður upplýsti okkur um hvor stefnan er stefna Vinstri grænna. Ég veit að það er erfitt að gera það í stuttu andsvari en það yrði alla vega til þess að skýra umræðuna að þetta kæmi fram.

Í annan stað hefur mér fundist eins og Seðlabankinn sé orðinn leiðtogi þessa stjórnmálaflokks hér í umræðunni um efnahagsmál og ég geri ekkert lítið úr því. En Seðlabankinn hefur, eins og hv. þingmaður nefndi sérstaklega, gagnrýnt lágt vaxtastig hjá Íbúðalánasjóði og þess vegna hafa stýrivaxtahækkanir bankans meðal annars ekki virkað. Hv. þingmaður gagnrýndi það reyndar en hann talaði einnig um breytta efnahagsstjórn. Mér þætti vænt um að hv. þingmaður upplýsti betur hvað í þeim orðum felst. Það yrði líka til þess að styrkja umræðuna. Ég hlustaði grannt á ræðu hv. þingmanns en náði því ekki alveg (Forseti hringir.) hvað hann átti við með þessu.