135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:43]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við, ég og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, höfum nú um nokkurra ára skeið verið á þingi. Ég minnist þess ekki að í fjárlagafrumvarpi sem lagt hefur verið fram á þessum tíma — nema kannski einu sinni — hafi verið getið um að ráðast ætti í stóriðjuframkvæmdir. Það hefur einungis verið sagt að þessi mál væru í óvissu og ákvörðun kæmi síðar. Samt hefur á þessu tímabili verið ráðist í einar mestu stóriðjuframkvæmdir sögunnar.

Hann spyr: Hvaða framkvæmdir? Ég segi: Stoppa Landsvirkjun í Þjórsá. Stöðva áform um virkjanir í Þjórsá, það eru skilaboð. Ég segi stoppa. (Gripið fram í.) Herra forseti. Þetta kemur greinilega mjög illa við þingmennina og eðlilega, ekki síst fjármálaráðherra sem aldrei skilur hvað hann er að leggja fram.

Landsvirkjun er 100% í eigu ríkisins. Við vorum að tala um hverjir hefðu áhrif á þenslu og framkvæmdir. Það er meðal annars Landsvirkjun og ríkisstjórnin ræður algjörlega yfir Landsvirkjun. Hún getur alveg stýrt þeim framkvæmdum sem Landsvirkjun ræðst í. Þar mætti stoppa núna strax og þá eru það skilaboð um að ekki verði ráðist í stækkun álvers í Helguvík, ekki í stækkun álvers í Straumsvík o.s.frv.

Það er verið að sigla hraðbyri inn í einkavæðingu, ég er reyndar alveg hissa á að Samfylkingin skuli vera með í því. Einkavæðing heilbrigðiskerfisins er hið stóra mál næstu vikna og missira enda er forsætisráðherra alveg yfir sig heppinn og ánægður að vera kominn með Samfylkinguna sér við hlið (Forseti hringir.) þannig að hægt sé að taka til hendi og fara á fullt í einkavæðingu. Við erum ekki sammála því, við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.