135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:45]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var um mjög margt merkileg ræða hjá félaga mínum, hv. þm. Jóni Bjarnasyni, talsmanni Vinstri grænna í fjármálum. Ég verð nú eiginlega að útnefna hv. þingmann sem skuggaráðherra fjármála landsins og mun líta til þess þegar við förum að vinna í fjárlaganefndinni. Honum þykir vænt um að þingmenn Samfylkingarinnar séu farnir að hlusta. Ég hélt að engum hefði dulist að Samfylkingin hlustar, hún hefur verið nefnd hér samræðustjórnmálaflokkur landsins og samræður byggja yfirleitt á góðri hlustun.

Félagi hv. þm. Jóns Bjarnasonar, hv. þm. Ögmundur Jónasson, hafði orð á því áðan að ég hefði ekki setið undir ræðu hans í salnum. Ég bendi hins vegar á að hægt er að hlusta víða á þessu svæði og minnist þess ekki að ýmsir þingmenn Vinstri grænna hafi setið undir fádæma góðri ræðu minni morgun. (Gripið fram í.) Talsmaður Vinstri grænna sat hins vegar undir henni og hlýddi á og veitti andsvör.

Það er tvennt sem ég vildi koma að út af þessari ræðu. Í fyrsta lagi að hv. þm. Jón Bjarnason minntist á bindiskyldu bankanna og að fjármagn í umferð ætti að vera minna en það er. Í öðru lagi minnist hann á að lánshlutfall Íbúðalánasjóðs hafi lækkað úr 90 í 80% eða í raun og veru að dregið er úr fjármagni í umferð eins og hann sjálfur minntist á. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Er það stefna Vinstri grænna að takmarka flæði á fjármagni? Og svo varðandi þær sögur sem hann sagði af Englandsbanka: Er það stefna Vinstri grænna að það sé eðlilegt að veita bönkum landsins og öðrum einkafyrirtækjum ríkisábyrgð eins og hann vék að í ræðu sinni?