135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þessi umræða um bindiskyldu bankanna kom í framhaldi af ræðu sem hv. þm. Illugi Gunnarsson flutti hér og velti fyrir sér hvernig hægt væri að draga fé úr umferð. Þá benti ég á að þetta er heimild sem Seðlabankinn hefur og þegar bindiskyldan var lækkuð á sínum tíma held ég að margir hafi talið það vera ranga ákvörðun. Það var m.a. nefnt sem ein ástæðan fyrir því að þenslan fór í gang. Hvort það sé aðgerð sem á að beita núna þá má vel vera að það sé eðlilegt að leggja meira fé í Seðlabankann til að standa af sér hugsanlegar sveiflur. Þetta var gert á síðasta ári og talið nauðsynlegt þá að styrkja eigið fé Seðlabankans og ég tel að það geti líka verið brýnt að gera það í dag. Hvað varðar þá spurningu tel ég mjög mikilvægt að staða Seðlabankans sé sem allra sterkust gagnvart því að standa af sér sveiflur og Seðlabankinn hefur ekki mörg tæki til þess.

Varðandi þetta með bankana. Já, þetta er mjög athyglisvert og ég get alveg sagt að á sínum tíma þegar bankarnir voru einkavæddir og gefnir nokkrum auðmönnum sem löbbuðu með þá út undir hendinni fyrir spottprís, þá var ég andvígur því að báðir bankarnir væru seldir með þeim hætti og taldi að ríkið ætti að eiga einn sterkan þjóðbanka sem það gæti síðan haft hér. Sú skoðun mín er alveg óbreytt. Hins vegar viðurkenni ég að það mundu renna á mig tvær grímur alveg eins og það runnu tvær grímur á forsætisráðherra Bretlands, og er þó ekki við neitt smámenni að jafna og ég ætla ekki endilega að fara að gera það, þegar hann ákvað að hlaupa undir bagga með breska bankanum sem var að fara á hausinn þó að hann væri á þessum ofboðslega frjálsa markaði sem allir mæra, til að koma í veg fyrir að almenningur og fyrirtæki töpuðu eignum sínum og færu á hausinn. (Forseti hringir.) Ég hygg að við bærum ábyrgð á því hvernig hlutirnir þróuðust og hvernig við mundum síðan bregðast við.