135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:09]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Rekstrargjöldin í þessu frumvarpi hækka minna að raungildi en þau gerðu á milli áranna 2006–2007. Stærsti hlutinn, nánast helmingurinn af þeirri aukningu (BJJ: Talaðu um heildarmyndina.) er vegna varnarliðsins.

Það eru tilfærslurnar sem hækka umtalsvert. Stærsti hlutinn af því eru almannatryggingarnar, samningur við eldri borgara og öryrkja, sem ég og þáverandi heilbrigðisráðherra Siv Friðleifsdóttir gerðum við eldri borgara og samþykktur var í lok síðasta árs. Samgöngurnar hafa aukið við framkvæmdirnar og það er m.a. vegna þess að lotunni í stóriðju er að ljúka. Það er í samræmi við langtímaáætlunina sem var í gildi fyrir ári síðan.

Síðan hefur hv. þingmaður eitthvað gleymt því hvernig 6. gr. heimildirnar virka. Þó að það sé heimild í 6. gr. þá eru takmarkanir fyrir því hvaða skuldbindingar og kostnaður má vera þar á bak við. Það byggir á öðrum greinum fjárlagafrumvarpsins í ýmsum köflum sem við eiga, í heimildargreininni sjálfri eða þá, í því tilfelli sem hann vísar til sem hefur væntanlega skírskotun til fjárreiðulaganna, að heimilt er að gera skuldbindingar vegna fjárlagaliða sem áætlað er fyrir inn í tímann, til framtíðar. Það þurfa viðkomandi ráðherrar að gera, fagráðherrann og fjármálaráðherrann. Þannig er 6. gr. sem fyrrv. heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins fékk inn í frumvarpið við 2. umr. árið 2000.