135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:20]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var ekki besta ræða sem hv. þingmaður hefur flutt. Það getur nefnilega vel farið saman að menn tali um kreppu og menn tali um þenslu. Hv. þingmaður hlýtur að geta gert sér grein fyrir því. Ef menn missa tökin á efnahagsmálunum getur það vissulega leitt til kreppu og það eru sterkar áhyggjuraddir í samfélaginu í þá átt að þenslan sé of mikil og heyrist kannski ekki síst frá fyrrverandi forsætisráðherra Davíð Oddssyni.

Hæstv. forseti. Ég vil í lok þessa andsvars míns spyrja: Hver er stefna Samfylkingarinnar tengd þessum fjárlögum? Hvaða stefnubreyting hefur átt sér stað á örfáum mánuðum? Samfylkingin, með varaformann sinn í broddi fylkingar, gagnrýndi þá útþenslu utanríkisþjónustunnar, hvort ekki væri hægt að nota internetið meira, loka sendiráðum og allt þetta, hvers lags óráðsía þetta væri. Síðan verður formaður Samfylkingarinnar utanríkisráðherra og fjárveitingar til utanríkisráðuneytisins aukast um rúm 20%. Er þessi flokkur samkvæmur sjálfum sér í pólitík?

Við getum fundið margar ræður úr tíð síðustu ríkisstjórnar þar sem stjórnarliðar komu upp og bentu á að margt væri athugavert við þau fjárlög sem þá voru rædd og menn viðruðu áhyggjur sínar. Höfum við heyrt einhverjar raddir um það? Nei, þetta eru æðisleg fjárlög. Þetta er alveg frábært. Við höfum aldrei skilað meiri tekjuafgangi, alveg meiri háttar. Hér er fólk sem býr í fílabeinsturni og neitar að hlusta á þá umræðu sem á sér stað úti í þjóðfélaginu. Fólk hefur áhyggjur af því að verðbólgan muni valda því miklu hugarangri og erfiðleikum. Húsnæðismálin eru til að mynda tengd verðbólgunni. Þetta eru mál sem snerta okkur öll og ekki er allt jafnæðislegt og menn hafa gefið til kynna.