135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:32]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi bregðast aðeins við síðari hluta ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sem laut að framkvæmd fjárlaga. Það hefur ítrekað verið nefnt í þingsölum í dag að fjárlaganefndin og fjármálaráðuneytið hafa lagt mikla áherslu á, á umliðnum mánuðum og ekki síður á næstu vikum, að fara yfir framkvæmd fjárlaga. Við höfum kallað eftir ýmsum gögnum til fjárlaganefndarinnar. Þetta er eitt af þeim þremur verkefnum sem hæstv. fjármálaráðherra kynnti hér í morgun. Í fyrsta lagi breytt verklag við fjárlagagerðina, í öðru lagi rammafjárlagagerð og í þriðja lagi yfirferð á framkvæmd fjárlaga. Það skýrir sig og hefur skýrt sig í umræðunni eins og fjölmargir hafa vikið að.

Hins vegar vekur það ekki eftirtekt að hér séu ólíkar skoðanir, að dregið sé fram það sem hv. þingmönnum finnst fara miður eða það sem mönnum finnst hafa gefist vel. Ég vildi einfaldlega spyrja hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur hvort sú mikla vinna og yfirferð sem starfsmenn ríkisstofnana og ráðuneyta hafa lagt í umrætt fjárlagafrumvarp sé þannig að þingmönnum Vinstri grænna þyki ekki neitt til þeirrar vinnu koma og að í raun sé ekkert í fjárlagafrumvarpinu sem hægt er að vera stoltur af.