135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:34]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir auðvitað ágætt að menn hafi áform um að taka til í ríkisfjármálum okkar og breyta vinnulaginu en það höfum við ætlað að gera í mörg ár. Við höfum talað um það ítrekað og að nafninu til höfum við haft þessi rammafjárlög til þriggja ára. Þau hafa bara ekki virkað. Mín kenning er sú að ekki hafi verið nægur vilji til þess hjá framkvæmdarvaldinu að fara eftir þeim stefnumiðum eða þeim neyðarljósum sem menn hafa þó sett, í orði kveðnu.

En með nýjum mönnum koma kannski nýjar reglur. Ég treysti hv. formanni fjárlaganefndar alveg til að standa vaktina og ég brýni hann til þess og vona að hann komi til með að gera það og eitthvað breytist frá því sem verið hefur. Þetta hefur ekki verið í góðu ástandi og þetta er ekki í fyrsta skipti sem ríkisendurskoðandi gefur okkur ábendingar á borð við þær sem við fáum í dag eða í skýrslu hans, sem ég var að nefna.

Varðandi hitt, hvort við séum vanþakklát gagnvart öllu því fólki sem hefur lagt hönd á plóg við gerð þessa mikla plaggs, vil ég segja að svo er ekki. Við erum ekki að gagnrýna það fólk sem hefur unnið vinnuna, handavinnuna, sem er mikil, flókin og er vel af hendi leyst. En fólkið sem hefur unnið þá vinnu er ekki ábyrgt fyrir pólitíkinni í plagginu, svo sannarlega ekki. Við gagnrýnum pólitíkina í plagginu. Pólitíkin í plagginu er ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.