135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:38]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í inngangi ræðu minnar, þegar við vorum að fjalla um stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra, þá er ég tilbúin að styðja þessa ríkisstjórn til góðra verka. Að sjálfsögðu eru margir góðir þættir í fjárlagafrumvarpinu. Við búum í góðu samfélagi og höfum alla möguleika á að gera það betra. Ábendingar þær sem ég var með í tíu mínútna ræðu minni lutu að því að gera samfélagið betra en það er.

Það má því ekki skilja orð mín svo að ég sjái hvergi ljós í þessu frumvarpi. Við eigum auðvitað eftir að takast á um grundvallaratriði í frumvarpinu, eigum eftir að vinna saman, leggja hönd á plóg öll saman úr flokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi. Vonandi kemur út úr því málamiðlun á ýmsum sviðum og auðvitað treysti ég því að eitthvað af sjónarmiðum Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs, sem við höfum talað fyrir í dag, nái fram að ganga á endanum. Eins og ég segi þá eigum við eftir að fara með þetta allt í gegnum nefndirnar og það er kannski þar sem hin eiginlega vinna, við pólitíkina í þessu öllu saman, mótast og tekur á sig endanlega mynd.