135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:55]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að leyfa mér að óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með fyrsta fjárlagafrumvarpið sem hann leggur fram á nýbyrjuðu kjörtímabili. Við erum gamlir samstarfsmenn og mér þykir tilheyrandi að byrja mína ræðu á að óska honum til hamingju.

Það er svo að 1. umr. um fjárlagafrumvarp felur yfirleitt í sér umræðu um útlínurnar, efnahagsástandið o.s.frv. Við bíðum gjarnan með að koma með tillögur um einstök málefni þangað til í 2. umr. Ég vona að stjórnarliðar skilji það og ég veit þeir gera það. Við eigum eftir að fara í gegnum fjárlagafrumvarpið og gera okkur grein fyrir því hvað það felur í sér. Þetta frumvarp ber vitni um góðan árangur fyrri ára, hjá fyrri ríkisstjórnum, og Framsóknarflokkurinn er stoltur af því að það skuli birtast með þessum hætti. Við höfum skilað góðum árangri og margoft rætt það og ný ríkisstjórn tekur við góðu búi.

Ég vil aðeins koma inn á að ég tel mikilvægt að haldið verði áfram að bæta áætlanagerð í ríkisfjármálum. Við höfum margrætt þetta og margt hefur verið gert í því á undanförnum árum. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til dáða í að halda því áfram. Það koma fram mikil frávik í tekjuáætlun ársins 2007 frá fjárlögum ársins. Það er náttúrlega athyglisvert að sjá áætlun um að fjármagnstekjuskattur skuli hækka um 20 milljarða milli ára. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra ætti líka að ná samstarfi með skattyfirvöldum við að lagfæra áætlanagerð við álagningu skatta. Það skekkir útlínur og mynd fjárlaga, tekjuáætlunar, ef það er ekki í góðu lagi. Ég held að þar sé verk að vinna og ég er viss um að menn geta náð þar góðum árangri með samstarfi.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að ræða um framkvæmd fjárlaga, við höfum svo oft gert það á undanförnum árum. Hæstv. fjármálaráðherra þekkir sjónarmið mín í því og ég þekki hans sjónarmið. Ég hvet hann einfaldlega til dáða við það að ná betri árangri í þeim efnum. Ég veit að félagar hans í stjórnarmeirihlutanum eru tilbúnir til þess með honum. Þar er verk að vinna eins og við höfum séð í skýrslu Ríkisendurskoðunar og auðvitað þarf að ná betri árangri.

Ég vil fagna því sem fram hefur komið um að hér verði á vorþingi rætt um útgjaldaramma og forgangsröðun í útgjöldum ríkissjóðs næstu ára. Ég er einn af þeim sem hafa margoft rætt það og lagt til að svo verði gert. Mér sýnist að ríkisstjórnin ætli að fara út á þá braut. Ég fagna því og ég held að það sé til bóta varðandi fjárlagagerðina og vinnubrögðin í því. Ég vil lýsa ánægju minni með það hér í þessari umræðu.

Eins og gengur kemur margt fram í framsögu hæstv. fjármálaráðherra við 1. umr. fjárlaga. Eitt af því sem vakti athygli mína var hugmynd, a.m.k. hugmynd, um að stofna sjóð til að mæta óvæntum útgjöldum. Ég held að ýmis rök mæli með þessu. Ég þekki það sjálfur frá fyrri tíð og er fyrir mitt leyti tilbúinn að fara yfir það. En ég vek athygli á því og legg á það áherslu að ákvarðanir um útgjöld úr þeim potti, ef við getum orðað það svo, verði nátengdar Alþingi þannig að fjárveitingavaldið komi mjög sterkt að því. Þar vísa ég til laga um fjárreiður ríkisins og stjórnarskrár. Þegar við ræðum þau mál nánar verður að hafa það í huga.

Annað sem vakti athygli í ræðu hæstv. ráðherra var hugmynd um að stofnanir gætu slegið lán hjá ríkissjóði og greitt til baka með vöxtum. Hér er athyglisvert mál á ferðinni sem við þurfum að fara vandlega í gegnum og hafa hliðsjón m.a. af fjárreiðulögum og stjórnarskrá. Ég held að það sé að mörgu leyti varhugavert að fara út á þá braut að gera þetta þótt ég telji ekki ástæðu til að útiloka það á þessu stigi. Ég vil taka þátt í umræðu um það, fara yfir þessar hugmyndirnar og átta mig betur á því hvað hæstv. fjármálaráðherra á við með þessu. Vonandi fáum við tækifæri til þess fljótlega.

Í frumvarpinu og fylgigögnum sjáum við þá jákvæðu þróun sem orðið hefur síðustu ár varðandi hreina stöðu ríkissjóðs. Það er með ólíkindum að sjá þessar tölur, hreina stöðu ríkissjóðs á Íslandi. Ég hef ekki rannsakað það en ég efast um að við sjáum hliðstæður hjá öðrum löndum í nágrenni okkar. Ég minnist þess að þegar ég kom inn á Alþingi 1995 voru vaxtagjöldin líklega þriðji stærsti útgjaldaliður fjárlaga. Í dag eru vaxtatekjurnar hærri en vaxtagjöld og ríkissjóður skuldar nánast ekkert. Af þessu sést hve gríðarlegur árangur hefur náðst í ríkisfjármálum á undangengnum árum. Þar hafa haldist í hendur framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, í þeirri baráttu, og getum við verið sáttir með það og ánægðir.

Ég vek athygli á öðru sem kemur fram í frumvarpinu, þ.e. fjármagnstekjuskatti sem ríkið innheimtir. Árið 1995 var ekki innheimtur fjármagnstekjuskattur. Árið 2005 var þessi skattur sem ríkið innheimtir rétt tæplega 15 milljarðar kr. Á þessu ári er áætlað að fjármagnstekjuskatturinn verði um 31 milljarður, hann hefur tvöfaldast á tveimur árum. Þetta sýnir okkur hvað er að gerast í okkar hagkerfi og hvaða afleiðingar við sjáum, m.a. af einkavæðingunni á fjármálamarkaði sem við fórum út í fyrir nokkrum árum. Þetta er athyglisvert.

Tíminn flýgur, margt að segja og ég þarf að stytta mál mitt miðað við það sem ég ætlaði mér. Ég vil bara ítreka, virðulegur forseti, án þess að ég sé með tillögur um það núna, að ég hvet ríkisstjórnina til að gæta að sér í ríkisútgjöldum. Þó að tekjuafgangur sé samkvæmt þessu frumvarpi góður, og ég ætla ekki að draga úr því, þá er full ástæða til að gæta að sér varðandi útgjöld ríkissjóðs. Tekjuafgangurinn núna er fyrst og fremst borinn uppi af tekjuaukanum, ekki af aðhaldi í útgjöldum, að mínu mati. Ég vil beina því til hæstv. fjármálaráðherra, sem ég veit að gerir sér fulla grein fyrir þessu, að horfa til þessara hluta.

Það væri út af fyrir sig ástæða til að nefna nokkur einstök atriði í frumvarpinu en tímans vegna ætla ég að spara mér það þar til síðar. Í því eru ýmsir óvissuþættir og það er ekkert óeðlilegt, t.d. er varðar hugsanlegar stóriðjuframkvæmdir og hvað varðar kjarasamninga. Ég geri þó ráð fyrir því að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir einhverju svigrúmi til þess að mæta kjarasamningum og hugsanlegum launabreytingum sem þar verða. Ég á hins vegar eftir að rannsaka nánar hvort frumvarpið gerir ráð fyrir útgjöldum varðandi breytingar á Stjórnarráðinu og — af því að hæstv. iðnaðarráðherra gengur hér fram hjá — hvort gert er ráð fyrir sérstökum útgjöldum, kostnaði, t.d. vegna þess að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu er skipt upp í tvö ráðuneyti. Það á eftir að koma í ljós og við munum skoða það.

Eins og heyrist, sem eflaust kemur einhverjum á óvart, eru viðhorf mín almennt séð gagnvart þessu frumvarpi jákvæð. Ég tek hins vegar fram að ég á eftir að fara í gegnum það efnislega. En ef maður skoðar útlínurnar og heildarmyndina þá er hér auðvitað á ferðinni frumvarp sem sýnir gríðarlega öfluga stöðu ríkissjóð. Sú staða er fyrst og fremst árangur ríkisstjórna síðustu ára. Við stóðum saman í þessu verkefni, framsóknarmenn og sjálfstæðismenn.

Hér hefur verið mikið rætt um, m.a. forsætisráðherra hefur nefnt það, að svigrúm sé til skattalækkana. Ég er almennt hlynntur því að lækka skatta en hlýt að taka undir varúðarsjónarmið sem fram hafa komið um skattalækkanir við þær aðstæður sem nú eru í hagkerfinu. Ég beini því til stjórnarmeirihlutans og hæstvirtra ráðherra að hafa það í huga og velja réttar tímasetningar til þess, þegar þar að kemur.

Nú er tíminn runninn út, virðulegur forseti. Ég á heilmikið eftir sem ég ætlaði að nefna en ætla ekki að fjalla um það hér og nú. Ég læt þá máli mínu lokið en við eigum eftir að fara í gegnum frumvarpið og gera okkur grein fyrir hvað í smáatriðum felst í því og munum auðvitað taka ýmis mál fyrir við 2. umr. og brjóta frumvarpið til mergjar.