135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:06]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hlý orð í minn garð og þakka honum fyrir málefnalega umræðu. Það er vissulega rétt hjá honum að það er gott bú sem við höfum með að sýsla þessa dagana.

Ég held að hv. þingmaður hafi einmitt greint rétt eitt af stærstu umræðuefnum dagsins, þ.e. áætlanagerðina og þá sérstaklega tekjuáætlunina. Hv. þingmenn hafa verið mjög ósáttir við það hve ónákvæm hún hefur reynst. Hv. þingmaður kom inn á réttu skýringuna þegar hann nefndi fjármagnstekjuskattinn til sögunnar. Þar er nánast nýr tekjustofn kominn til sögunnar og jafnframt aukast mjög tekjur af tekjuskatti lögaðila. Þessir tveir þættir breyta hlutföllunum í tekjuöflun ríkisins og skýra að miklu leyti þann tekjuauka sem orðið hefur á síðustu árum. Þegar við förum að skilja betur hvernig þessir þættir virka í hagkerfi okkar mun áætlanagerðin batna að sama skapi.

Ég vil einnig þakka hv. þm. Magnúsi Stefánssyni fyrir málefnaleg viðhorf til þeirra sjónarmiða sem ég hef kynnt um bætta fjárlagagerð. Ástæðan fyrir því að ég kynnti þau til sögunnar fyrir kynningu fjárlaga og fyrir þessar umræður var einmitt sú að ég vildi fá umræðu um þetta, fá menn til þess að taka höndum saman um að ræða það mál og finna betri farveg fyrir vinnu okkar í þeim efnum. Það er hárrétt sem hann segir um framkvæmd fjárlaga, að hana höfum við rætt mjög oft. Við megum ekki gera hana að hanaslag. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar, framkvæmdarvaldsins, fjárveitingavaldsins og Ríkisendurskoðunar, að hafa hemil á þessu.

Ég tek síðan undir það sem hv. þingmaður sagði, að við þurfum að gæta að okkur í útgjöldunum, jafnvel þótt staðan sé góð.