135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:08]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka orð hæstv. ráðherra í minn garð. Það mætti halda að við værum enn þá í sama liðinu. Auðvitað erum við það að mörgu leyti og viljum vinna saman að þessum málum.

Hvað varðar tekjuáætlunina geri ég mér grein fyrir því, sem fyrrverandi formaður fjárlaganefndar, að það er ekki eins einfalt og sumir vilja vera láta að búa til nákvæma tekjuáætlun. Það er hárrétt sem hæstv. ráðherra sagði, sérstaklega varðandi fjármagnstekjuskattinn. Það er ekki mjög einfalt að áætla hann fyrir fram enda margir óvissuþættir sem spila þar inn í og mjög gróf nálgun sem menn þurfa að beita í þeirri áætlunargerð.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar en ítreka það sem ég sagði áðan og hvet hæstv. fjármálaráðherra, ríkisstjórnina, stjórnarmeirihlutann og fjárlaganefnd, til að vera vakandi varðandi gjaldahlið fjárlaganna. Þótt það sé góðæri í dag og tekjurnar langt umfram áætlanir þá getum við ekki búist við því að það vari að eilífu. Við skulum því búa okkur undir að einhvern tíma komi að því að kreppi að og þá er eins gott að menn hafi ekki verið of gírugir í að auka samneysluna. Þeir sem þá verða við völd þurfa að taka sér ákveðin verkfæri í hendur og gera hluti sem ég held að ekkert okkar sem hér erum a.m.k. viljum þurfa að gera.