135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:10]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að segja nokkur orð til viðbótar við fyrri ræðu mína um fjárlagafrumvarpið. Þar vil ég nefna að ég lít svo á að fjárlagafrumvarpið endurspegli pólitískan vilja. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum nota fjárlögin til jöfnunar, til að jafna stöðu fólks eftir búsetu, eftir kyni, eftir því hvort fólk býr við fulla heilsu eða ekki og til að jafna aðgengi fólks að opinberri þjónustu. Við viljum nota fjárlögin til þess að jafna stöðu íbúa þessa lands og lítum á fjárlögin sem tæki til forgangsröðunar. Ég get ekki talið upp hvert einstakt atriði í því efni í stuttri ræðu en þessa sýn höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Þess vegna setjum við fram gagnrýni okkar á forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og við eigum eftir að koma enn frekar að því við frekari vinnslu fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2008.

Mörg okkar hafa nefnt að forsendur fjárlagagerðarinnar eru mjög veikar af ýmsum ástæðum, m.a. vegna fjármagnstekjuskattsins. Það er erfitt að áætla hver hann verður. En eitt er alveg víst, að verði sú ákvörðun tekin að halda hér áfram með stóriðjustefnuna þá mun það eitt og sér ryðja öllu öðru til hliðar því að ruðningsáhrifin verða áfram inni í hagkerfinu og munu reynast erfið. Þótt við búum núna tímabundið við ástand sem við höfum í raun illa ráðið við þá gerum við það enn síður til lengri tíma.

Ég spyr: Viljum við búa við það ástand sem ríkir í dag, ofþensluna í þjóðfélagi okkar á öllum sviðum? Við ráðum ekki við að manna heilbrigðisþjónustuna, ráðum ekki við að manna leikskólana og aðra skóla. Við fáum ekki fólk til að vinna þau störf. Opinberar stofnanir eru ekki samkeppnishæfar gagnvart hinum frjálsa markaði. Hér verðum við að stóla á að fá fólk af erlendu bergi brotið til að vinna fyrir okkur. Sem betur fer, segi ég, er það möguleiki en til lengri tíma litið tel ég að það sé óheillaþróun að spenna bogann svo hátt að við getum ekki mannað heilbrigðisþjónustu og skóla. Ég tel að sú staða sem nú er uppi á þessum mikilvægu stofnunum sé okkur til vansæmdar, sé okkar skömm. Ef við getum ekki búið svo að þeim starfsmönnum og stofnunum sem sinna velferðarþjónustu okkar á þvílíkum þenslu- og uppgangstímum sem nú eru, þegar við getum og höfum efni á að leggja til hliðar fjármuni, skatttekjur sem eru umfram áætlanir, hvenær eigum við þá að gera það? Getum við gert það þegar niðursveiflan kemur, getum við þá farið að bæta kjörin? Nei, það er ekki hægt.

Með þeirri hagstjórn sem nú ríkir er það eingöngu hið opinbera, þ.e. ríkisvaldið sem heldur í við sig. Alþingi hefur eingöngu það ráð að draga saman í opinberum rekstri eða halda þétt utan um fjármálin og fresta eða fara ekki í opinberar framkvæmdir. Það er eina ráðið sem hið opinbera hagkerfi hefur til að draga úr verðbólgu. Ef við ætlum að búa við slíkt þensluástand áfram mun það bitna enn meira og verr á opinberri þjónustu en gerist í dag.

Við höfum nýlega fengið í hendurnar endurskoðun ríkisreiknings frá 2006 frá ríkisendurskoðanda sem bendir á þá alvarlegu stöðu að margar opinberar stofnanir hafi farið langt yfir 4% markið sem sett er að megi ekki fara yfir á fjárlögum, það sé alvarleg staða og fjármálaráðherra og Alþingi verði að skoða það mjög vel.

Ég leyfi mér að fullyrða, hæstv. forseti, að það sé í raun óþarfi að leggjast í mikla rannsókn á þessu sviði. Að því leyti sem ég þekki til heilbrigðisstofnana, hvort heldur það er Landspítalinn, sjúkrahús, heilsugæslustöðvar, dvalarheimili, hjúkrunarheimili, tökum allt fyrir, þá er augljóst að allar þessar stofnanir hafa verið fjársveltar á undanförnum árum og eiga þó allar að sinna ákveðnum skyldum. Þeim hefur ekki tekist að uppfylla þær eins og sem þeim ber og þannig að þjónustan sé eins og vilji og geta leyfir vegna þess að þær hafa ekki fjármagn til þess. Hvað á þá að gera? Núna er það svo að framkvæmdarstjórarnir einir bera fjárhagslega ábyrgð á hverri stofnun. Hvað eiga þeir að gera þegar þeir sjá fram á að reksturinn sem þeir bera ábyrgð á, sem er skilgreindur, þegar fjármagnið dugar ekki? Hvað eiga þeir að gera, fara fram úr fjárlögum? Það er ekki heimilt. Draga saman, loka deildum, skella saman tveimur bekkjum í hverjum árgangi?

Hver ber hina pólitísku ábyrgð? Það er ekki ráðherrann sem segir: Þú skalt loka ákveðnum deildum og þú skalt draga úr skilgreindri þjónustu. Ábyrgðin er þín vegna þess að þér var ekki skammtað meira fjármagn en þetta. Nei, hjá ráðherra er engin ábyrgð. Ábyrgð á skertri þjónustu er hjá framkvæmdarstjóranum eða stofnuninni. Er hægt að stjórna opinberri þjónustu með þessum hætti? Nei, það er ekki hægt. Þá segja menn: Já, en Sóltún? En heilsugæslan í Salahverfi? Þar eru allir svo ánægðir, svo ánægðir með þjónustuna í einkarekstri.

Sóltún, sem betur fer, náði þeim samningum sem nægja til að reka þá þjónustu, eins og við viljum að opinbera þjónustan sé. Þeir fengu það fjármagn sem önnur hjúkrunarheimili í sömu stöðu ættu að fá en fá ekki. Síðan er sagt: Þarna sjáið þið, einkarekin þjónusta er miklu, miklu betri. Það eru allir miklu ánægðari, sjúklingarnir, starfsfólkið og allir eru ánægðir.

Væri ekki starfsfólkið á Grund og öðrum hjúkrunarheimilum og dvalarheimilum ánægðara ef daggjöldin væru það há og sanngjörn og sambærileg og framlögin til Sóltúns? Væru þá ekki allir ánægðari, starfsfólk og sjúklingar? Yrði ekki niðurstaðan hin sama í samsvarandi könnun á ánægju með þjónustuna?

Það er búið að svelta opinberar stofnanir svo lengi og svo illa að það er meira að segja orðið viðkvæðið hjá dvalarheimilisgestum, hjá sjúklingum: Svei mér þá, það má einkareka þetta allt saman — allt er betra en þetta. Fjársvelti stofnananna hefur verið viðvarandi og getur varla versnað. Á svo að bera þær saman við þær stofnanir sem fá nægilegt fjármagn?

Auðvitað vantar meira fjármagn inn í opinberu stofnanirnar þannig að við getum verið stolt af þeirri þjónustu sem við höfum efni á og viljum veita. Við höfum menntað starfsfólk, menntaða hjúkrunarfræðinga sem vinna við önnur störf en hjúkrun. Hvers vegna? Þenslan er það mikil og launakjörin svo miklu betri á hinum almenna markaði en hjá ríkisstofnunum. Auðvitað sækir þá fólk í betur launuð störf. Er það ekki eðlilegt?

Hvernig er þá þessu mætt? Er þessu mætt með fjölgun nema? Er þessu mætt með því að bæta svo kjör hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og annarra í umönnunarstörfum að þeir fáist til að vinna þau störf? Nei. Nú á að leita út fyrir landsteinana og fá útlendinga í þessi störf. Meira að segja hin einkarekna hjúkrunarþjónusta reynist of dýr. Nei, nú á að leita að útlendingum. Er þetta (Forseti hringir.) þjóðfélagið sem við viljum? Viljum ekki aðeins slaka á, halda stóriðjunni fyrir utan og (Forseti hringir.) reyna að ná mjúkri (Forseti hringir.) lendingu svo að við getum lifað í eðlilegu og mannúðlegu samfélagi.