135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:20]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að ég er aftur stiginn í ræðustól, í annað sinn í dag, er sú að ég ætlaði að eiga orðastað við hæstv. samgönguráðherra, Kristján Möller, langaði til að fá þann ágæta mann til að taka mig og þingheim í smákennslustund varðandi samgöngumálin. Hann lýsti því yfir við stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra 1. október að hann hefði fyrir því sannanir að einkaframkvæmd í samgöngumálum hefði reynst heppilegri, hún væri ódýrari, hún stæðist betur tímaáætlanir o.s.frv. Ég hafði hug á því að fá hæstv. ráðherra til að skýra fyrir okkur hvaðan hann hefði þessar upplýsingar og færa rök fyrir máli sínu. Hæstv. ráðherra hafði samband við mig og okkur kom saman um að umræða um þetta efni færi fram síðar, hann hefur eðlilegar ástæður til að sækja ekki þingfund nú síðdegis og hef ég ekkert við það að athuga.

Hér hafa komið fram ýmsar athugasemdir og ábendingar, m.a. við mitt mál. Ég vísa í mál hv. þm. Illuga Gunnarssonar. Hann upplýsti okkur um að á undanförnum árum hefði framlag til heilbrigðismála og menntamála aukist að raungildi á Íslandi. Ég get upplýst hv. þingmann um að þetta hefur gerst víðast hvar í hinum vestræna heimi og hinum iðnvædda heimi, heilbrigðiskerfið hefur orðið dýrara, sömuleiðis menntakerfið. En það er einn hængur á, enn skortir fjármagn til þess að hægt sé að reka íslenska velferðarkerfið og íslenska menntakerfið sem skyldi. Víða má segja að landauðn blasi við, stofnanir eru að tæmast og þar vísa ég til ýmissa stofnana í öldrunarþjónustu, í málefnum fatlaðra og einnig í skólunum. Ekki er það allt á ábyrgð ríkisins, sumt er á ábyrgð sveitarfélaga, en það er alvarlegur vandi sem við blasir. Við höfum hvatt til þess að ríkisstjórnin rísi undir ábyrgð í fjárveitingum sínum og við höfum gagnrýnt að það sé ekki gert í fjárlagafrumvarpinu sem liggur fyrir.

Hv. þm. Illugi Gunnarsson vék einnig að framlagi til lífeyrismála og þá einnig til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ég verð að segja að ágætlega hefur verið staðið að þeim þætti á undanförnum árum þegar litið er aftur til ársins 1997 en þá var gerð breyting á lagaumhverfi lífeyrissjóðanna, m.a. hinna opinberu. Talsvert fjármagn hefur verið látið renna til gömlu deildar LSR til þess að styrkja stöðu hans og hefur þar verið sýnd framsýni. Þó verð ég að segja að þetta frumvarp veldur mér áhyggjum að því leyti að fjórða árið í röð er krónutalan sem hér um ræðir hin sama, um 4 milljarðar kr. Sérfræðingar telja að þetta geri ekki meira en rétt halda í horfinu og væri ekki fyrir að þakka góðri ávöxtun fjármuna lífeyrissjóðanna stefndi í óefni.

Það eru engar ölmusugreiðslur sem hér er verið að inna af hendi og minni ég á að hér fyrr á tíð voru miklir fjármunir teknir úr hinum opinberu lífeyrissjóðum vaxtalaust og nýttir til samfélagslegrar uppbyggingar. Ég gagnrýni ekki að svo hafi verið gert en þetta var að sjálfsögðu gert á kostnað eiginfjárstöðu þessara sjóða. Annað er að almannatryggingakerfið hefur notið þess hve öflugt lífeyriskerfi opinberu lífeyrissjóðanna var.

Hv. þm. Illugi Gunnarsson fékk andsvar vegna ræðu sinnar hvað þetta snertir. Hann hvatti til þess að það yrði íhugað að greiða jafnvel þessar skuldir upp, eða þessar skuldbindingar öllu heldur, og finnst mér það vera íhugunarefni að sönnu, en sú gagnrýni sem hann fékk þá á sig var að með því móti væri hugsanlega verið að sleppa miklu fjármagni út í hagkerfið. Hv. þingmaður benti þá á að hægt væri að setja þær skorður með lögum eða reglum að þessu fjármagni yrði beint til útlanda.

Staðreyndin er sú að það sem verið er að láta renna inn í lífeyrissjóðina með þessum hætti er miklu minna en sú upphæð sem lífeyrissjóðirnir beina út úr landinu. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er með á milli 91 hundrað milljarða í fjárfestingum erlendis en það er um 30% af fjárfestingarfé sjóðsins. Lögum samkvæmt er hægt að fara upp í hærri hlutföll, um 50%, en það er um þriðjungur, 30%, sem rennur til útlanda í hlutabréf aðallega og eitthvað í aðrar skuldbindingar.

Ármann Kr. Ólafsson, hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kvaddi sér hljóðs og vildi gefa okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði umsagnir og einkunnir, sagði að við töluðum út og suður, einn mælti með niðurskurði og aðhaldi í ríkisbúskapnum og aðrir töluðu fyrir skattalækkunum og var þar vísað í þann sem hér stendur. Ég var ekki að tala fyrir skattalækkunum. Ég var hins vegar að benda á svik Samfylkingarinnar sem á hverjum stjórnmálafundinum á fætur öðrum, sem ég sótti fyrir síðustu kosningar, lofaði því að hækka skattleysismörk í hvað? 150 þús. kr. (Gripið fram í.) Nú kannast enginn neitt við neitt. Við? spyr hæstv. iðnaðarráðherra, lofuðum við þessu? Já. Í Borgarnesi (Forseti hringir.) fullyrti hv. þm. Ellert B. Schram frammi fyrir fullskipuðum sal að Samfylkingin ætlaði að hækka skattleysismörk í 150 þús. kr. Ég heyrði þetta á fleiri fundum sem fulltrúar Samfylkingarinnar voru á. Við? spyrja fulltrúar Samfylkingarinnar nú.

Það sem Samfylkingin er hins vegar að gera núna er að lækka skattleysismörkin að raungildi. Það er sagt í frumvarpinu að skattleysismörkin og persónuafslátturinn eigi að fylgja þróun verðlags. Hver er þróun verðlags frá ágúst til ágústmánaðar? 4,2%. Það er gert ráð fyrir að frá desember í fyrra til desember í ár verði hún 4,8%. Og menn ætla að 90 þús. kr. skattleysismörkin fari upp í rúmlega 93 þús. kr. með þessum hætti, rúmar 93.200 krónur.

Ef hún fylgdi hins vegar launavísitölu, sem frá september til september hækkar um 8%, færu skattleysismörkin í rúmar 97 þús. kr. En Samfylkingin, sem lofaði að keyra skattleysismörkin upp í 150 þús. kr., er að rýra skattleysismörkin að verðgildi. Það var ekki ég sem var að lofa skattalækkunum eða krefjast skattalækkana. Ég var að minna á þau loforð sem menn voru kosnir út á inn á þing. Það var ég að gera og það væri ágætt ef hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson áttaði sig á því. Það er ekkert misræmi í málflutningi þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvað þetta snertir. Við erum einvörðungu að minna á loforð sem gefin voru í aðdraganda síðustu alþingiskosninga og við erum að benda á efndirnar í fyrsta fjárlagafrumvarpi sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar leggur fram. Það var það sem við vorum að gera.

Við vorum að gera annað og höfum gert og ég gerði það í ræðu minni hér áðan, þegar ég sagði að öldin væri ung en þegar værum við sennilega að verða vitni að stærsta þjófnaði Íslandssögunnar. Það er nefnilega verið að stela auðlindum þjóðarinnar. Fyrst voru það sjávarauðlindirnar, nú eru það fallvötnin og jarðvarminn sem fjárfestarnir gína yfir, voma yfir, og þetta gerist í skjóli ríkisstjórnarinnar, þetta gerist í skjóli íhaldsins í Reykjavík. Eða vita menn hvað er að gerast hér í skjóli myrkurs nánast án lýðræðislegrar umræðu þegar menn eru að renna saman Geysi Green Energy, sem er dulnefni fyrir Glitni og FL Group, og síðan dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur? (Forseti hringir.) Þetta eru mál sem kalla á miklu meiri umræðu og alvarlegri en við höfum tíma til við þessa umræðu þar sem hverjum þingmanni eru skammtaðar tíu mínútur.