135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:31]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sannarlega hefði iðnaðarráðherra gaman af því að taka þátt í þeirri umræðu sem hv. þingmaður nefndi. Ég held að það sé margvíslegt tilefni til að hún fari fram. Áður en ég kem aðeins að því í þessu stutta andsvari þá fannst mér drengilegt af hv. þm. Ögmundi Jónassyni að vísa til þess að hæstv. samgönguráðherra gæti ekki, af verðugu tilefni, verið hér. Hv. þingmaður vildi spyrja hann um einkaframkvæmdina og hagkvæmni hennar. En ég velti fyrir mér, frú forseti, hvort hv. þingmaður ætti ekki að spara sér að kalla hæstv. samgönguráðherra í salinn til þess að spyrja hann út í það. Af hverju spyr hann ekki hv. þm. Árna Þór Sigurðsson um það? Er sá hv. þingmaður ekki einn af þeim borgarfulltrúum í Reykjavík sem lýsti því yfir að hann hefði ekkert á móti því að tiltekin stórframkvæmd sem tengist samgöngumálum Reykvíkinga yrði sett í framkvæmd með þeim hætti?

Að því er varðar stuld á orkulindum þá vil ég bara segja eitt: Ef hv. þingmaður hefur haft tíma til að hlusta á með hvaða hætti iðnaðarráðherra hefur talað um það þá vissi hann að sá ráðherra hefur sagt það algjörlega skýrt að hann sé þeirrar skoðunar að skipta eigi orkumarkaðnum upp þannig að samkeppnisreksturinn verði í sérstökum fyrirtækjum og í öðru fyrirtæki verði þá jafnan sá þáttur sem við getum kallað einokunarþáttinn og sá hluti verði alltaf í félagslegri meirihlutaeign.

Sá gerningur sem var gerður í dag fól t.d. í sér ákvæði í samningnum sem gerir það að verkum að einokunarþátturinn í Hitaveitu Suðurnesja verður í félagslegri meirihlutaeign. Það skiptir miklu máli, ekki síst vegna þess að forustumenn þess fyrirtækis höfðu áður talað í aðra veru.

Að því er varðar stefnu iðnaðarráðherra í sambandi við orkulindirnar sjálfar þá er staðan þannig núna að stór meiri hluti þeirra er í samfélagslegri eigu, bæði nýttar og ónýttar orkulindir. Það liggur ljóst fyrir að sú stefna sem ég hef lýst að ég vilji fylgja í vetur gerir ráð fyrir því að ekki verði heimilt að flytja þær úr samfélagslegri eigu. Hv. þingmaður getur því a.m.k. (Forseti hringir.) sofið rólegur vegna þess.