135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:49]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég var búin með kjarnann af því sem ég ætlaði að segja í fyrri ræðu minni en langar þó áður en umræðum lýkur að nefna örlítið eitt af mínum hjartans málum sem eru menningarmálin. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Illuga Gunnarssyni, að í menntamálakafla frumvarpsins eru vissulega tíðindi sem varða menntamálin sem eru ánægjuleg alla vega við fyrsta yfirlestur. Menntamálanefnd mun síðan að sjálfsögðu fá í heimsókn það fólk sem stendur fyrir hin ólíku skólastig, háskólastigið, framhaldsskólastigið og grunnskólastigið, og fara nánar yfir þann kafla. En við fyrstu yfirferð virðist manni vera margt gott og vel tekið á málum þar.

Hins vegar langar mig til að senda örlítil skilaboð um fjárveitingar til menningarmála inn í vinnu nefndanna. Nú vitum við öll hve mikil áhersla hefur verið lögð á nýsköpun í atvinnuvegunum, framsækið samfélag þarf á því að halda að nýsköpun sé mikil. Í mínum huga skiptir þar verulegu máli hversu vel við búum að hinum skapandi stéttum, hversu vel við gerum listamönnum þessa lands kleift að skapa verðmæti og leggja sinn skerf til menningararfsins, og ekki bara starfandi listamönnum heldur ekki síður áhugafólki í menningu og listum. Nú er það alkunna að fjármunir hins opinbera hafa í áranna rás runnið í menningarstarfsemi bæði atvinnufólks og áhugafólks og ég ætla svo sannarlega ekki að gagnrýna það. Mér finnst sjálfsagt að svo sé því að við hér erum ábyrg fyrir því að menningararfurinn haldi áfram að verða til, að til verði menningararfur.

Hins vegar hefur mér oft fundist streymi fjár héðan í einstök menningarverkefni og í einstaka geira menningarinnar æðiómarkvisst. Ég á mér þann draum að fjárlög ríkisins geti verið með þeim hætti að það fólk sem starfar innan menningarinnar, hvort sem það er atvinnufólk eða áhugafólk, viti nokkurn veginn að hverju það gengur varðandi stuðning hins opinbera í þessum málaflokkum.

Ég er ekki sátt við þann plagsið sem viðhafður er hér að safnliðir í fjárlagafrumvarpi í menningarmálunum skuli ævinlega skornir niður við trog frá einu fjárlagaári til annars. Nú er það svo að fjárlaganefnd hefur sýslað með safnliðina í þessum geira og bætir iðulega mjög ríflega í þá þegar farið er að vinna mál í nefndinni, en þegar fjárlagafrumvarpið lítur dagsins ljós að ári er ævinlega búið að skera niður alla þessa safnliði. Það verður til þess að það fólk sem rekur t.d. tónlistarhátíðir vítt og breitt um landið heldur að það sé búið að skera niður, að það fái ekki fjárveitingu til starfsemi sinnar á því ári sem fjárlagafrumvarpið varðar.

Nú er það ekki svo því að í langflestum tilvikum fá þessir aðilar aftur stuðning. En mér finnst algerlega ófært að hátíðir, t.d. tónlistarhátíðir sem eru á ársbasis, ég nefni tónlistarhátíð í Reykholti, Skálholti, Kirkjubæjarklaustri, Siglufirði, Mývatni og víðar um landið viti ekki hverju má búast við. Þegar tónlistarsjóður var stofnaður á Alþingi Íslendinga fagnaði ég því mjög að þar með væri kannski kominn ákveðinn farvegur fyrir slíkar fjárveitingar.

Nú hefur það því miður ekki orðið raunin. Nú er tónlistarsjóður búinn að starfa í þrjú ár, ég er ekki með nákvæmar tölur fyrir árið sem nú er að líða, hvernig fjárveitingar í gegnum tónlistarsjóð voru eða hvernig það fór á endanum, en árið þar á undan, þ.e. 2006, tók tónlistarsjóður til sín á fjárlögum 50 millj. kr. En fjárlaganefnd gat ekki á sér setið og leyfði tónlistarsjóðnum ekki að úthluta einum til tónlistarverkefna heldur úthlutaði fjárlaganefnd að auki tæpum 10 millj. kr. til tónlistarverkefna, sem fór þá ekki í gegnum það faglega mat sem allar umsóknir sem fóru í gegnum tónlistarsjóðinn urðu að fara í gegnum. Þetta hefur orðið til þess að nú sækja þeir sem eru að sækja um til Alþingis bæði til sjóðanna sem við búum til, tónlistarsjóðs, hins nýja bókmenntasjóðs og til leiklistarráðs — þetta eru farvegir sem við höfum verið að reyna að koma á — en líka til fjárlaganefndar af því að fólk veit að fjárlaganefnd getur ekki á sér setið og opnar budduna fyrir þeim sem hljóta náð fyrir augum hennar.

Þetta er ekki nógu góður framgangsmáti þannig að ég auglýsi eftir því og hvet fjárlaganefnd og þá sem koma áfram að fjárlagavinnunni í nefndunum til þess að taka þetta allt til gagngerrar endurskoðunar og hæstv. fjármálaráðherra til að skoða þetta í sínum ranni, hvort ekki megi tryggja að tónlistarsjóður sé svo gildur að hann geti t.d. gert samninga við fastar tónlistarhátíðir til þriggja ára eða til fimm ára þannig að tryggt sé að tónlistarfólk viti að hverju það gengur í þessum efnum. Svipað fyrirkomulag hefur verið við lýði hjá leikhúsfólki. Leikhúsfólk hefur haft ákveðinn fjárlagalið til sjálfstæðra leikhópa á fjárlögum og það hefur verið hending og undantekning ef leikhópur hefur sótt um sjálfstætt til fjárlaganefndar, allt fjármagnið hefur farið í gegnum leiklistarráð. — Nema núna, í fyrra og á þessu ári, þá ber á því að fólk áttar sig á því að það er líka hægt að sækja fjármuni beint til fjárlaganefndar.

Nú kemur hv. formaður fjárlaganefndar í salinn og ég treysti því, úr því að hann heyrði ekki ræðu mína, að hann lesi hana þegar hún er komin á þingvefinn og taki ráðleggingar mínar afar alvarlega. Það skiptir alla máli sem starfa innan menningargeirans að fólk viti að hverju það gengur, að það hafi ákveðið öryggi, geti planlagt eða gert áætlanir til lengri tíma en eins árs — eða þess vegna eins og nú er kannski jafnvel alls ekki. Það er á okkar ábyrgð að þessu fólki sé gert kleift að starfa. Því betur sem við skipuleggjum fjármuni og fjárveitingar til menningargeirans því meiru megum við búast við af því fólki sem starfar í geiranum, hvort heldur það er atvinnufólk á sviði menningar og lista eða áhugafólk.