135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:58]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér virðist nú að hv. þingmaður hafi þrátt fyrir allt þörf fyrir að lesa ræðu mína því að kjarni ræðunnar var sá að ég tel að það þurfi að koma ákveðnu skikki og setja ákveðið form á þær fjárveitingar sem fara í gegnum þingið til menningarmála og listastarfsemi.

Við höfum á fjárlögum safnasjóð, við höfum húsafriðunarsjóð, við höfum tónlistarsjóð, bókmenntasjóð, fornleifasjóð og menningarsamninga við landsbyggðina. Allt eru þetta tæki sem við höfum búið okkur til til þess að hafa hlutina í farvegi. En við erum á villigötum ef við búum til tvo farvegi og höfum þessa sjóði með ákveðinn eyrnamerktan sjóð eða pott en gerum jafnframt því fólki sem sækir í þessa sjóði kleift að sækja um til fjárlaganefndar, ef fjárlaganefnd hefur aukaúthlutun fyrir það fólk sem á rétt á því að sækja í þessa sjóði. Við eigum að setja þá fjármuni sem við ætlum í þessa hluti inn í sjóðina og tryggja að þar fái hlutirnir faglega umfjöllun í þeim sjóðstjórnum sem við höfum ákveðið að séu skipaðar en reyna að standast þá freistingu að fjárlaganefnd sé til hliðar með sjálfstæða útdeilingu fjármuna, jafnvel miklu, miklu hærri upphæðir en sjóðirnir fá.

Ég held ég muni það rétt að húsafriðunarsjóður hafi rúmar 90 millj. kr. í fjárlagafrumvarpinu. Ég held ég muni það líka rétt að í fyrra og árið þar áður hafi fjárlaganefnd úthlutað að auki hærri upphæð en húsafriðunarsjóðurinn hafði eyrnamerkt á fjárlögum. Það sama á við um safnasjóð. Fjárlaganefnd úthlutaði hærri upphæðum til safna en safnasjóður úthlutaði á síðasta ári. Það er þetta sem ég er að gagnrýna, þessu verðum við að koma í farveg. Það held ég að komi okkur öllum til góða.