135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[19:15]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki hægt að bera saman þetta tvennt, þ.e. flutningsjöfnunarsjóð vegna olíuvara og sementsjöfnunina. Þetta eru gjörólík kerfi. Sú ákvörðun að leggja niður þennan sjóð flytur ákveðin skilaboð til landsbyggðarmanna: Ríkisstjórnin ætlar ekki að sinna byggðunum. Þetta er gróf aðgerð. Ég hefði viljað fá tækifæri til að tala við hæstv. samgönguráðherra um þetta mál miðað við allar ræðurnar sem hann hefur haldið á háttvirtu Alþingi úr þessum ræðustóli um flutningskostnað. Hann á eftir að heyra ræður um þetta á Eyþingi. Um helgina er sveitarstjórnarþing á Norðurlandi eystra, á Raufarhöfn, og eitt er víst, hann mun ekki komast í gegnum það þing án mikillar gagnrýni, miðað við öll stóru orðin sem hafa verið látin falla um flutningskostnað. Það fyrsta sem hann gerir þegar hann kemur í ríkisstjórn, hann fer ekki erindisleysu inn í ríkisstjórnina, hæstv. ráðherra, er að leggja niður flutningsjöfnunarsjóðinn.