135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[19:16]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það dálítið sérstakt að þegar Framsóknarflokkurinn leggur niður gamalt jöfnunarkerfi þá er það allt í lagi og sjálfsagt og það virkar og hefur jákvæð áhrif á verðþróunina. En þegar Samfylkingin leggur til að leggja niður gamalt jöfnunarkerfi þá er allt ómögulegt og útilokað að það virki neitt. (VS: Þau eru mjög ólík.) Jöfnunarkerfin eru ólík. Hvernig í ósköpunum stendur á því að svona vitlaust jöfnunarkerfi var rekið í sementinu? Bar Framsóknarflokkurinn ekki ábyrgð á því? Það ber allt að sama brunni. Þær breytingar sem hafa átt sér stað koma fram í afstöðu manna.

Ég vil aðeins koma aftur að Hafrannsóknastofnuninni. Mér sýnist að í fjárlagafrumvarpinu og í mótvægisaðgerðunum sé verulega verið að bæta í hvað varðar hlut hafrannsókna, varðandi Hafrannsóknastofnunina sjálfa og einnig varðandi útibúin og setrin víða um land. Í þriðja lagi er það gert með því að setja upp markáætlanir bæði í þorskeldi og í hafrannsóknum. Með því er verið að opna fyrir aðkomu annarra vísindamanna en þeirra sem eru annaðhvort við Hafrannsóknastofnunina eða í útibúum eða setrum sem henni tengjast. Við ættum því að fá meiri breidd og þar með meiri möguleika á því að fá góða og virka vísindalega umræðu um hafið og fiskinn í sjónum til þess að styrkja okkur í því að taka ákvarðanir í framtíðinni. Ég fagna því að hv. þingmaður sýnir þessum hluta skilning og áhuga.