135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[19:19]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarp fyrir árið 2008. Ég vil byrja á því að óska hæstv. fjármálaráðherra hjartanlega til hamingju með frumvarpið. Þetta er fjórða árið í röð sem fjárlagafrumvarp sýnir afgang. Samanlagður afgangur þessara fjögurra ára er um 300 milljarðar eins og kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra.

Ég ætla ekki að fara í efnislega umræðu enda tíðkast það ekki við 1. umr. að ræða efnislega um framlög til aldraðra eða öryrkja, til heilbrigðismála eða menntamála. Það bíður 2. umr. og umfjöllunar í nefnd. En ég vil benda á að þessi afgangur á fjárlögum fjögur ár í röð er mjög mikilsvert framlag ríkisvaldsins til þess að berjast gegn þenslu hér á landi. Ég vil einnig benda á þau gleðilegu tíðindi að vaxtagjöld eru nú verulega lægri en áætlaðar vaxtatekjur, sem þýðir að ríkissjóður er farinn að láta vextina vinna með sér en ekki á móti sér og mætti margur Íslendingurinn læra af því. Ég ætla heldur ekki að geta um stóraukin útgjöld, sem eru á vissan hátt dapurleg en stórauknar tekjur vega þar á móti. En ég ætla að ræða um þensluna sem mönnum hefur orðið tíðrætt um.

Ég tel að Kárahnjúkavirkjun hafi ekki valdið mikilli þenslu. Mannskapurinn var að mestu leyti erlendur, fjármagnið var erlent og tækin og tólin voru erlend og það kom því ekki mikið við íslenskt efnahagslíf. Hins vegar er vaxtalækkun bankanna, sem hófst fyrir þremur árum, vextir voru lækkaðir stórlega og útlán að sama skapi aukin, ein aðalástæða þenslunnar sem við búum við í dag sem er vegna þess að mikil eftirspurn er eftir íbúðarhúsnæði.

Menn hafa talað um að miklar sveiflur séu í gengi á myntum. Ég skil þá umræðu ekki almennilega vegna þess að sveiflur krónunnar gagnvart evrunni eru ekkert mjög miklar og eiginlega minni en sveiflur dollarans gagnvart evrunni. Ég heyri frá Evrópuþjóðum að þær kvarta mikið undan því hvað evran sé orðin dýr. Forsvarsmenn útflutningsgreina í Þýskalandi og Frakklandi kvarta undan því að þeir fái lítið fyrir vöru sína í Bandaríkjunum og vilja að gripið verði til aðgerða. Það væri þá kannski ráð að taka upp dollara í evrulandinu eins og menn vilja taka upp evru hér þegar þeir kvarta undan sveiflum. En mér skilst að bandaríkjadollari hafi hækkað um 70% á sjö árum gagnvart evru og mundi mönnum bregða hér á landi ef því væri svo farið um krónuna.

En mig langar til þess, herra forseti, að ræða um viðskiptahallann. Nokkur lönd í heiminum hafa mikinn viðskiptahalla og eru Bandaríkin ef til vill þar fremst í flokki. Ég leyfi mér að fullyrða að góður hluti af halla Bandaríkjanna er með ríkisábyrgð. Hann er með ríkisábyrgð vegna þess að löndin sem mest flytja út til Bandaríkjanna, Kína sérstaklega, hafa notað afganginn af viðskiptajöfnuðinum til að kaupa bandarísk ríkisskuldabréf. Þannig séð má segja að halli Bandaríkjanna sé fjármagnaður með ríkisábyrgð. Þessu er öðruvísi farið hér á landi. Ríkissjóður er með afgangi og hann er orðinn skuldlaus. Sveitarfélögin hafa líka séð að sér og staða þeirra hefur batnað þannig að hið opinbera á Íslandi á engan þátt í viðskiptahallanum. Hann er allur fjármagnaður með ábyrgð einstaklinga. Það er mjög veigamikið atriði.

Nú vil ég biðja menn að hafa í huga að það er einhver aðili, einhver lánveitandi, sem lánar fyrir þessum viðskiptahalla. Hann hlýtur að gæta að því að þau lán sem hann veitir skili arði. Hann færi ekki að lána öðruvísi, sem segir mér að viðskiptahallinn er ekki til. Það hljóta að vera duldar tekjur á móti. Reyndar er hluti af viðskiptahallanum jöklabréfin sem eru væntanlega með ábyrgð íslenskra fjölskyldna að einhverju leyti, yfirdrætti og öðru slíku, sem sagt skammtímalánum. Og síðan er viðskiptahallinn líka vegna útrásarinnar eins og menn hafa nefnt hér. Fyrirtæki sem kaupir t.d. fyrirtæki í Bretlandi tekur til þess breskt lán og fjárfestir í Bretlandi en þeir peningar koma aldrei til Íslands. En vaxtagreiðslurnar af láninu koma til gjalda í viðskiptahallanum. Hagnaðurinn af kaupunum kemur hugsanlega ekkert fram ef eignin eða hlutabréfin eru ekki seld. Það er ekki fyrr en þau eru seld sem hagnaðurinn kemur fram. Þess vegna tel ég að viðskiptahallinn sé stórlega ofmetinn og í ljósi þeirrar röksemdar að hann sé án ríkisábyrgðar hlýtur hann að vera mjög lítill.

Varðandi skuldsetningu heimilanna þá hafa íbúðir hækkað mjög mikið í verði þannig að í reynd eiga einstaklingarnir mjög vel fyrir skuldunum. Eignirnar hafa hækkað miklu meira en skuldirnar, jafnvel þær verðtryggðu, vegna þess að meginuppistaða verðbólgunnar er jú hækkun á fasteignum. Á bak við þetta allt saman eru því mjög góð veð og góðar eignir.

Mér finnst ekki hægt að tala um fjárlagafrumvarpið með svo góðri afkomu án þess að geta þess hvernig við ætlum að nýta afganginn og ég vil gera það með því að lækka skatta. Það er ekki spurning. Ég tel að góða stöðu ríkissjóðs megi skýra með því að við höfum lækkað skatta. Lækkun skatta hvetur einstaklinga og fyrirtæki til dáða. Lækkun skatta er hvati fyrir menn að skaffa meira, afla sér hærri tekna, annaðhvort með meiri menntun, ábyrgð eða jafnvel með meiri vinnu, sem er kannski ekki beint æskilegt. En skattalækkanir hvetja menn til að skila góðri afkomu og fá há laun.

Þegar ég kem að þeim óskalista þá eru vörugjöldin fyrst og fremst. Þau eru svo óskapleg. Flækjustigið er svo hátt. Það kostar svo mikið að greiða vörugjöld. Ég hef heimsótt fyrirtæki þar sem tveir starfsmenn gera ekkert annað en að reikna út vörugjöld. Það er ekki vinna sem skilar miklu í þjóðarbúið. Þannig að ég hugsa að lækkun vörugjalda mundi einfalda alla skattaframkvæmd í fyrirtækjum og verða þar af leiðandi arðsöm.

Svo er það stimpilgjaldið. Við getum að sjálfsögðu ekki lækkað stimpilgjald á fasteignir eða fasteignaverðbréf í þeirri stöðu sem nú er því að stimpilgjöldin er eina veikburða bremsan á frekari hækkun íbúðaverðs. Ef við mundum fella þau niður þá mundi síðasta bremsan gefa sig og verðið á íbúðum hækka enn frekar. Ég held að það séu ekki margir sem vilja það. Við gætum hins vegar lækkað stimpilgjöld á öðrum skuldbindingum, skammtímalánum og öðru slíku, og ég held að við ættum að skoða það og vera tilbúin um leið og fasteignaverð fer að lækka. Stóraukið framboð á íbúðum mun fyrr eða seinna lækka verð á fasteignum. Þá á hæstv. fjármálaráðherra að vera tilbúinn að lækka stimpilgjaldið.

Ég vil svo að sjálfsögðu lækka tekjuskattinn. Ég vil frekar lækka prósentuna en persónuafsláttinn vegna þess að persónuafslátturinn er niðurgreiðsla á lág laun. Við erum að niðurgreiða lág laun með persónuafslættinum. Ég vil ekki sjá lág laun á Íslandi. Ég vil hvetja fyrirtæki og einstaklinga til að borga há laun og fá há laun. Það gerum við best með því að lækka prósentuna þannig að menn sjái meira eftir því sem þeir vinna meira og hafa hærri tekjur. Þetta er mjög mikilvægt. Ég held að þar sé heilmikið land að vinna. Lækkun tekjuskatts í prósentum mundi hvetja menn til frekari mennta, til þess að taka að sér aukna ábyrgð, afla meiri tekna o.s.frv. Það kemur þjóðfélaginu til góða í auknum umsvifum og ríkissjóði til góða með auknum skatttekjum.