135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[19:48]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veitti nú hv. þm. Ögmundi Jónassyni bjartsýnisverðlaunin áðan en ég verð eiginlega að taka þau strax af honum og veita þau félaga mínum og kollega í fjárlaganefndinni, hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Auðvitað er það svo að við höfum rætt almennt um atriði er snúa að framkvæmd fjárlaga og höfum haft sameiginlegan skilning í því máli að ég tel, öll fjárlaganefndin. Hins vegar þarfnast málið sem hér er vikið að þá annarrar umræðu af hálfu hv. þingmanns.

Hv. þm. Jón Bjarnason vill auðvitað vel í þessu máli og hefur sínar skýringar og skoðanir í þeim efnum líkt og hæstv. fjármálaráðherra. Hæstv. fjármálaráðherra hefur öll tækifæri og getu til að koma fram með hugmyndir eins og hér hefur verið varpað fram og þær hugmyndir fara auðvitað til efnislegrar umræðu. Ég verð því að segja fyrir mitt leyti að ég horfi til þess að ráðherrar jafnt sem aðrir þingmenn varpi fram hugmyndum um það sem betur má fara. Síðan getum við haft ólíkar skoðanir á því þegar til umræðunnar kemur.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans hér. Ég nefndi hann í ræðupúltinu í morgun sem skuggaráðherra fjármála, enda er hann talsmaður Vinstri grænna, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, í fjármálum og situr í fjárlaganefnd. Ég vonast til að eiga við hann gott samstarf jafnt sem aðra stjórnarandstæðinga í fjárlaganefnd í þeirri vinnu sem við förum í á næstu vikum og mánuðum.