135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[19:50]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var í rauninni ekkert annað en að ég fagna undirtektum eða orðum hv. formanns fjárlaganefndar um að þessir allir þættir fara náttúrlega til umfjöllunar og allir hafa rétt til að koma sínum ábendingum og skoðunum á framfæri hvað það varðar og svo er bara unnið úr því.

Af því að menn voru að ræða söluna á Hitaveitu Suðurnesja áðan, þá er einmitt hægt að benda á á grunni hvaða heimildar er selt, hvaða orðum í fjárlögunum. Þar stendur einfaldlega: „Að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja.“

Ég minnist þess að hliðstæðar setningar voru inni þegar bankarnir voru seldir og ég held að ég muni það rétt að í athugasemdum sem komu bæði frá Ríkisendurskoðun og frá umboðsmanni Alþingis um framkvæmd slíkrar einkavæðingar og sölu á ríkiseignum, kæmi fram að setja bæri mun skýrari lög og mun skýrari verklagsreglur ekki aðeins um heimild til að selja þær heldur líka hvernig mætti selja þær og afleiðingar væru metnar, þannig að slíkt færi til umræðu innan þingsins og settar væru um það ákveðnar reglur. Enda er alveg fráleitt að hugsa sér framkvæmd fjárlaga með þeim hætti að hægt sé að selja hlut ríkisins í samfélagseign Hitaveitu Suðurnesja með skilyrðum í útboðum sem hvergi koma fram og hvergi standa á blaði í fjárlögunum. Að mínu viti var því ekki löglega staðið að sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja (Forseti hringir.) og reyndar bara ólöglega, að mínu mati, (Forseti hringir.) miðað við þær heimildir sem hér eru fyrir hendi.