135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[19:52]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þar erum við ósammála, ég og hv. þm. Jón Bjarnason, því að ég lít svo á að umrædd sala á sínum tíma hafi verið fullkomlega lögleg. Tekin var ákvörðun um að fara ákveðna leið og fela í þessu tilfelli einkavæðingarnefnd að sjá um söluna. Hún gerði það á ákveðinn hátt og framkvæmdi það faglega og er ekkert út á það að setja. Salan var vel kynnt og um hana víða fjallað. Fengnir voru fagaðilar til að fjalla um hana þannig að allir höfðu aðkomu að henni.

Auðvitað má kannski segja sem svo að menn gagnrýndu þau hliðarskilyrði sem sett voru við söluna. Í þeim efnum, eins og öðrum, voru ólíkar skoðanir uppi. Það var ákveðinn hugur sem lá að baki í þeim efnum og hugsun af hálfu ráðuneytisins. Það var einfaldlega ekkert óeðlilegt í gangi varðandi þá sölu heldur var hún fyrst og fremst öll unnin á faglegan hátt. Síðan kom í ljós að þrjú sveitarfélög ákváðu að nýta sér forkaupsréttinn og ég geri varla ráð fyrir að hv. þm. Jón Bjarnason hafi nokkuð út á það að setja, enda höfðu þau fullan rétt til þess samkvæmt þeim samþykktum sem félagið HS hf. starfar eftir.