135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[20:04]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þingmaður vega heldur ómaklega að Samfylkingunni og gera henni bæði upp hugarfar og verk sem ekki eru rétt. Fjárlagavinnan er þannig að hún gerist ekki á stuttum tíma. Það má líkja henni við olíuskip, það tekur talsverðan tíma að beygja og taka nýja stefnu. Það er vissulega hægt að láta það taka krappar beygjur. En það kostar öldugang og það er engin ástæða til þess að skapa einhvern öldugang í samfélaginu.

Vinstri grænir hafa örugglega önnur sjónarmið en fram koma í frumvarpinu. Það kemur engum á óvart. Og miðað við það sem hv. þingmaður segir, að það séu bæði hlutir sem þeir telji of mikið í lagt og hlutir sem vanti upp á, þá hlýtur hann ásamt félögum sínum að sýna okkur þær hugmyndir þegar líður á þessa vinnu á svipaðan hátt og Framsóknarflokkurinn hefur boðað. Ég tek orð hans þannig að hann boði svipaðar tillögur af hálfu Vinstri grænna. Þá verður tekist á um það í nefndinni og hér í þingsalnum þegar líður á fjárlagavinnuna og úrslit munu ráðast um það hver niðurstaðan verður. Þannig er það, þannig hefur það verið og þannig mun það vonandi verða áfram því að við viljum áfram byggja á þeim lýðræðishefðum sem eru grundvöllur þess starfs sem fer fram á Alþingi.