135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[20:06]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er fallega gert af hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins að taka upp hanskann fyrir Samfylkinguna. Það má vel vera að það taki tíma að taka krappar beygjur. En einmitt því hefur hæstv. forsætisráðherra hótað. Hann hefur hótað því að taka krappar beygjur til hægri. Hann hefur sagt að nú sé hann kominn með áhöfn sem sé dugandi, greiðvikin og hjálpfús þegar einkavæðingin er annars vegar og þar hefur hann vísað í heilbrigðisgeirann og orkugeirann sérstaklega. Og af yfirlýsingum oddvita Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra, að dæma, þá virðist hæstv. forsætisráðherra hafa nokkuð til síns máls í því efni.

Ég ætla ekkert að þræta fyrir það að góður ásetningur stjórnarflokkanna kunni að vera til staðar þegar velferðarþjónustan er annars vegar, en á það mun að sjálfsögðu reyna á komandi ári þegar stéttir innan samfélagsþjónustunnar ganga til kjarasamninga. Ég ætla að bíða með að fella hina þyngstu dóma þar til þeim er lokið.