135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

1. fsp.

[13:41]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ekki endilega andlag einkavæðingar. Heyra menn hvernig rætt er um þessi alvarlegu mál? Staðreyndin er sú að það er verið að einkavæða orkulindirnar. Það er að gerast núna varðandi Hitaveituna á Suðurnesjum. Þetta er staðreynd. Og hæstv. forsætisráðherra svarar með þeim hætti að næstum óskiljanlegt er hvert maðurinn er að fara. Staðreyndin er þessi: Undir verndarskjóli ríkisstjórnarinnar er verið að einkavæða orkulindir landsmanna.

Nú er ég farinn að skilja það líka hvers vegna talað er um að hið opinbera sé of svifaseint fyrir einkareksturinn. Það er náttúrlega þegar verið er að véla á þann hátt sem við höfum orðið vitni að núna á undanförnum dögum, þegar menn eru að færa dýrmætar eignir á milli. Slíkar tilfærslur þola ekki dagsljósið og það höfum við fengið heim sanninn um nú á undanförnum dögum.